28.10.2017 12:19

Skýr kostur: Sjálfstæðisflokkinn eða glundroða

Kjördagur, við höfum tækifæri til að leggja okkar af mörkum hvernig málum okkar verður stjórnað næstu fjögur árin.

Kjördagur, við höfum tækifæri til að leggja okkar af mörkum hvernig málum okkar verður stjórnað næstu fjögur árin. Í umræðum stjórnmálaleiðtoganna í sjónvarpi í gærkvöldi sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Það er ótrúlegt að heyra því haldið fram hér að það hafi verið eitthvað gefið eftir af skattstofnum, þegar við höfum verið að auka ráðstöfunartekjur fólksins í landinu. Þetta er hugmyndafræðilegt atriði, þegar við hugsum um vinnandi fólk, í Sjálfstæðisflokknum, þá sjáum við fyrir okkur harðduglega Íslendinga sem eru að framfleyta fjölskyldum. Þegar vinstri menn hugsa um vinnandi fólk þá sjá þeir fyrir sér skattstofn.“

IMG_3999Þarna er athyglinni beint að því sem skilur á milli þeirra tveggja höfuðkosta sem við blasa eftir kosningabaráttuna. Viljum við njóta svigrúms til að skapa okkur sæmilega fjárhagslega umgjörð og þannig leggja okkar af mörkum til þess að stækka kökuna sem er til skiptanna eða viljum við láta líta á okkur sem skattstofn í þágu ríkisvaldsins sem ákveður hvernig best sé að ráðstafa því fé sem við öflum.

 

Katrín Jakobsdóttir VG og Logi Einarsson Samfylkingu birtust sem áköfustu talsmenn skattahækkana og undir lék Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati sem vill hækka fjármagnstekjuskatt í 30% en talaði þó mest um stjórnkerfið sjálft eins og þeir gera sem hafa í raun ekkert til málanna að leggja. Þetta er þríeykið sem gerir sér vonir um að verða þungamiðjan í vinstri stjórn á morgun.

Það hefur skýrst í kosningabaráttunni um hvað ágreiningurinn innan Framsóknarflokksins snýst, ágreiningur sem klauf flokkinn. Sigmundi Davíð finnst gamli flokkurinn ekki halda hans eigin verkum nógu hátt á loft. Kosningaauglýsingar Sigmundar Davíðs og annar málflutningur hans er að mestu um það sem hann gerði en ekki hvað hann ætlar að gera. Hann er að ná sér niðri á þingflokknum sem setti hann af sem forsætisráðherra í byrjun apríl 2016 þegar hann lék einleik með þingrofsáform sín. Í kosningum móta menn framtíðina – fortíðinni verður ekki breytt.

Þá hefur einnig skýrst að inntak kosningastefnu Viðreisnar er að færa íslenskt efnahags- og atvinnulíf á sama stig og ríkir á evru-svæðinu þar sem vextir eru í kringum 0,0% í von um að takist að ýta undir hagvöxt. Vexti ákveða seðlabankar með hliðsjón af hagvexti, sé hann enginn lækka vextir og verða jafnvel neikvæðir, aukist hagvöxtur hækka vextir. Á annað lögmál að gilda hér?

Stefnumálin eru eitt. Mestu skiptir þó að festa skapist á stjórnmálavettvangi. Þess vegna skal tekið undir með bloggaranum Páli Vilhjálmssyni sem segir í dag:

„Í dag kýs ég Sjálfstæðisflokkinn, með sömu rökum og fyrir ári. Eina raunhæfa leiðin til að stjórnmálin verði eðlileg á ný er að Sjálfstæðisflokkurinn verði ráðandi afl.“