8.8.2022 10:00

Skynsemi eða tætaraleið í kjaramálum

Fullyrt skal að sjónarmiðið sem formaður BHM kynnir er örugglega betri leið til skynsamlegrar niðurstöðu í kjaramálum en tætaraleið Sólveigar Önnu Jónsdóttur.

Orðfærið sem notað er í fjölmiðlum, stjórnmálum og meðal ýmissa foringja verkalýðsfélaga þegar dregur að kjarasamningum er sambærilegt við það þegar menn búa sig undir stríðsátök þar sem litið er á tap eins sem forsendu fyrir sigri annars. Kjaraviðræður eru ekkert einkamál þeirra sem sitja við borð ríkissáttasemjara, þær snerta alla um borð í þjóðarskútunni. Enginn hefur umboð til að krefjast þess að henni sé siglt í strand.

Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), kemur úr utanríkisþjónustunni þar sem höfuðáhersla er lögð á að leysa deilumál með samningum. Hann hefur starfað í fastanefnd Íslands hjá NATO og setið í hermálanefnd bandalagsins. Til hans er leitað af fréttastofu ríkisútvarpsins og fleiri fjölmiðlum til að skýra gang stríðs Pútins og hvert stefnir í því.

Friðrik ritar grein um komandi kjaraviðræður sem birtist í Viðskiptablaðinu 4. ágúst. Þar segir hann að fyrir kjarasamninga hér sé ávallt „tilhneiging og upptaktur“ í þá veru að „það stefni í meiriháttar átök“. Nánast virðist sem sum sem að málum komi „hlakki til fararinnar“, það er til átakanna. Að lokum sé þó alltaf samið með mismiklum ávinningi og oft megi „einmitt velta fyrir sér hvort endanleg niðurstaða hafi einmitt ekki verið fullkomlega fyrirsjáanleg strax á upphafsreit“. Því megi spyrja hvort ekki sé unnt að tryggja frið á vinnumarkaði á betri hátt.

Friðrik segir að „í tveggja stafa verðbólguumhverfi“ sé ekki „ásættanlegt að horfa fram á hefðbundinn drátt í gerð kjarasamninga – að það geti liðið allt frá hálfu til eins árs frá því að kjarasamningar renna út þar til nýir liggja fyrir“.

Istockphoto-1361391451-170667aVerðbólgan eirir engu.

Tillaga Friðriks er að stjórnvöld virki þjóðhagsráð þar sem fulltrúar aðila vinnumarkaðar, seðlabanka og stjórnvalda hittast betur til að „greina og meta þann vanda eða áskorun sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir, leggja fram leiðir til lausnar, velja á milli þeirra leiða og gera sem mest úr kostum þeirrar leiðar sem valin er, samhliða því að dregið er úr ókostunum“.

Laugardaginn 6. ágúst sagði Morgunblaðið frá skýrslu um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga, sem unnin var af Katrínu Ólafsdóttur, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, að beiðni forsætisráðuneytisins til umræðu í þjóðhagsráði. Skýrslan var gefin út í júní en birt opinberlega 5. ágúst. Þar segir m.a að æskilegast sé „í þessari samningalotu að leita leiða til að tryggja kaupmátt þeirra sem verst standa á vinnumarkaði fremur en að leggja áherslu á nafnlaunahækkanir“.

Sama laugardag birti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, færslu á Facebook og hafnaði niðurstöðum funda Þjóðhagsráðs, ráðið gæti troðið skýrslu Katrínar Ólafsdóttur „beint í tætarann“.

Hér skal engum getum að því leitt hvaða skoðun Sólveig Anna hefur á grein Friðriks Jónssonar, formanns BHM. Hitt skal fullyrt að sjónarmiðið sem hann kynnir er örugglega betri leið til skynsamlegrar niðurstöðu en tætaraleið Sólveigar Önnu sem starfar í þeim anda að hennar sigur verði að valda öðrum skaða. Birtist eitthvað sem henni er ekki að skapi skuli það „beint í tætarann“. Lenínisminn lifi!