14.2.2018 11:16

Skúli Helgason eitt spurningarmerki

Vandræðagangurinn hjá formanni skólaráðs Reykjavíkur segir allt sem segja þarf um stjórnleysið í skólamálum undir forystu Samfylkingarinnar.

Eftir að grunnskólinn fluttist til Reykjavíkurborgar hefur orðið til viðamikil skrifstofa sem heldur utan um starfsemi hans. Þykir mörgum nóg um miðstýrða afskiptasemi af hennar hálfu. Kennarar sætta sig illa við að verða hluti af skrifræði hennar með alls kyns skýrslugerð. Miðstýrða fyrirmælaskráin tekur sífellt meiri tíma frá námskránni sem snýr að því sem nemandann varðar.

Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er formaður ráðsins sem trónir yfir skrifræðinu. Við hann var rætt í ríkisútvarpinu miðvikudaginn 14. febrúar eins sagt er frá á ruv.is. Hann sagði meðal annars:

„Við höfum sett mjög mikla peninga í steinsteypu í íslenska menntakerfinu.  Við byggjum mjög dýra og flotta skóla. Ég held að fókusinn hafi allt of lítið verið á innra starfið. Hvað er verið að gera inn í skólunum? Hvernig er stuðningur við kennara? Hvernig er stuðningur við nýja kennara sem eru að koma til starfa?  Hvernig er aðbúnaðurinn, fagstarfð  o.s.frv.?“

Myndin er af vefsíðunni reykjavik.is og sýnir hluta Austurbæjarskóla.

Þarna er boðað að horfið verði frá því að reisa „mjög dýra og flotta skóla“ og litið á „innra starfið“. Þegar að því kemur verður formaður skólamálanna ekki annað en eitt spurningamerki. Hann hefur ekki svör við neinu þrátt fyrir kerfisbáknið sem hann stjórnar og gerir ekki annað en óska eftir upplýsingum. Af spurningum má ráða að ekki fáist nein niðurstaða í rannsóknirnar.

Í frétt ruv.is segir:

„Einnig þurfi að leggja miklu meiri áherslu á að rannsaka hverju það skilar sem verið er að gera fyrir börn sem eru í vandræðum t.d. með lestur eða annað.

„Við erum að setja mikla fjármuni og mannafla í að sinna þeim en er verið að nota aðferðir sem skila þeim árangri?  Við höfum allt of fátækleg gögn og rannsóknir um það og það er þangað sem við þurfum að komast.““

Vandræðagangurinn hjá formanni skólaráðs Reykjavíkur segir allt sem segja þarf um stjórnleysið í skólamálum undir forystu Samfylkingarinnar. Svör formannsins eru í ætt við það þegar borgarstjórinn notar skjávarpa til að leysa húsnæðisvandann í stað þess að beita sér fyrir úthlutun byggingarlóða.

Vandi grunnskólanna í Reykjavík verður ekki leystur með því að varpa spurningum á vegg. Telji Skúli Helgason of ríkar kröfur gerðar til gæða skólabygginga í Reykjavík og það sé ástæðan fyrir hnignun innra starfs í skólunum verður hann að rökstyðja mál sitt með öðru en spurningum.