27.4.2017 11:37

Skrýtin Upplifun í Hörpu

„Það er hægt að gera kröfu um að í flottasta minnisvarða þjóðarinnar sértu með estetík og leiðbeiningar um útlit. Það virðist enginn hafa neitt um útlit hússins að segja,“ segir Greipur Gíslason um Hörpu.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir að óánægja ríki á meðal þeirra aðila sem sinna listviðburðum og menningarstarfi í Hörpu með verslunarreksturinn sem þar er. Þyki reksturinn byggja of mikið á ódýrum vörum sem höfði til ferðamanna og ekki nógu mikið tillit vera tekið til fagurfræði. Heimildir Fréttablaðsins hermi að óánægjan sé ekki síst meðal stjórnenda og starfsmanna Sinfóníunnar. Þeir forðist þó að ræða málin opinberlega.

Rætt er við Vilhjálm Guðjónsson, einn eigenda Upplifunar,  bóka- og blómabúðar í suðuraustur horni jarðhæðar Hörpu. Hann segist ekki hafa fengið athugasemdir af neinu tagi. „Ég veit ekki hvað þú ert að tala um,“ sagði hann við blaðamann Fréttablaðsins.

Greipur Gíslason var fastur starfsmaður í Hörpu í næstum þrjú ár. Hann segir ítrekaðar athugasemdir hafa verið gerðar við starfsfólk og stjórnendur Hörpu. Gera þurfi kröfur um fagurfræði í húsinu. „Það er hægt að gera kröfu um að í flottasta minnisvarða þjóðarinnar sértu með estetík og leiðbeiningar um útlit. Það virðist enginn hafa neitt um útlit hússins að segja,“ segir hann.

Ég er sammála Greipi og undrandi á orðum Vilhjálms. Ég hef í færslum á netinu gert athugasemdir við verslun Upplifunar. Hún fellur að mínu mati alls ekki að útliti Hörpu eða útlitskröfum sem eðlilegt er að gera til slíkrar starfsemi í Hörpu..

Fann ég til dæmis einu sinni að því að ég taldi lýsingu í versluninni spilla útliti Hörpu þegar horft væri á húsið utan frá. Halldór Guðmundsson, þáv. forstjóri Hörpu, svaraði mér og skildi ég svar hans þannig að breyting yrði á lýsingunni. Að hann hafi ekki rætt málið við eigendur Upplifunar kemur mér á óvart.

Þegar komið er í Hörpu má jafnan sjá þar hóp ferðamanna sem mundar síma sína eða myndavélar til að eiga minningar um komu sína í húsið. Anddyri þess eða sameiginlegt rými er einfalt og stílhreint. Við höfuðinngang hússins er Upplifun með verslun sína og stingur allt sem við blasir þar í stúf við heildarmyndina.

Í Fréttablaðinu gera menn því skóna að eðlilegar kröfur um estetík hafi orðið að víkja í Hörpu vegna yfirgangsstefnu Reykjavíkurborgar við innheimtu fasteignagjalda. Afstaða borgaryfirvalda til hússins er kapítuli út af fyrir sig og lýsir dæmalausu skeytingar- eða virðingarleysi í garð byggingar sem er meðal kennileita borgarinnar og ber menningarhróður hennar víða. Hvarvetna mundu yfirvöld viðkomandi borgar sjá sóma sinn í að hlú að slíkum mannvirkjum og stuðla að virðulegri ásýnd þeirra. Hér er það hins vegar féþúfusjónarmiðið sem ræður afstöðunni. Að það sjónarmið kalli á smekkleysi innan dyra í húsinu er þó illskiljanlegt.