2.3.2020 15:22

Skrumflokkar deila um ESB-umsókn

Inga Sæland sá sér leik á borði og kýs að gera Gunnari Braga og Sigmundi Davíð óleik með tillögu sem er í raun marklaus.

Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, var utanríkisráðherra á árinu 2015 þegar umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu var dregin til baka. Hann gerði það með bréfi um vorið og um sumarið fór Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáv. forsætisráðherra, núv. formaður Miðflokksins, til fundar við ESB-embættismenn í Brussel og áréttaði bréf Gunnars Braga.

Frá því að þeir flokksbræður gengu að ESB-umsókninni dauðri á þennan hátt hafa verið kenningar um samsæri embættismanna í því skyni að blekkja þá, þeir hafi ekki gert sér grein fyrir muninum á hvort Ísland væri candidate country eða applicant country. Báðir segjast þeir hafa verið í góðri trú um að þeir hafi dregið umsókn Íslands til baka.

SdgSigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jean-Claude Juncker í Brussel 9. júlí 2015. Á fundi þeirra áréttaði Sigmundur Davíð að Ísland væri ekki lengur ESB-umsóknarríki.

Í umræðum um þriðja orkupakkann töldu ýmsir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs, sem barðist gegn pakkanum, nauðsynlegt að rifja upp hvernig hann og Gunnar Bragi létu embættismenn plata sig við afturköllun ESB umsóknarinnar. Af þessu tilefni sagði Sigmundur Davíð í Morgunblaðinu 20. maí 2019: „Frá mínum bæjardyrum séð er þetta alveg skýrt og ég fékk það staðfest á fundum mínum með bæði Juncker og Tusk að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.“ Boðaði Sigmundur Davíð jafnframt að hann ætlaði að flytja tillögu til þingsályktunar til að fá stuðning annarra þingmanna við að þessi skilningur hans væri réttur.

Í ljósi alls þessa er grein sem Gunnar Bragi Sveinsson skrifar í Morgunblaðið í dag (2. mars 2020) næsta undarleg. Hún hefst á þessum orðum:

„Á Íslandi eru enn stjórnmálamenn sem hafa þá undarlegu sýn á framtíð Íslands að best sé að bjúrókrötum í Brussel verði falið ákvörðunarvald í sem flestum málefnum landsins.“

Þá segir einnig í greininni:

„Þeir eru líka til á Íslandi sem neita að horfast í augu við það að í ár eru 5 ár síðan slitið var viðræðum við ESB um aðild landsins að bandalaginu. Það var gert með bréfi þar sem þetta var tilkynnt alveg eins og þegar sótt var um með bréfi.“

Bendir Gunnar Bragi á að á þingmannaráðstefnu í Zagreb í Króatíu sem hófst mánudaginn 2. mars séu íslenskir fulltrúar skráðir með Norðmönnum og Bretum sem áheyrnarríki gagnvart ESB en ekki sem umsóknarríki.

Hann segir síðan:

„Ísland er sem sagt í hópi með Noregi og Bretlandi og undarlegt ef einhver heldur því fram að Noregur hvað þá Bretland sé í umsóknarferli. Einhver ætti þá að láta Boris vin okkar vita. Nýlega sást á dagskrá Alþingis þingmál er varðaði meinta stöðu Íslands sem umsóknarríkis. Annaðhvort var málið lagt fram af misskilningi, þekkingarleysi eða til þess eins að reyna að ná athygli. Ég kýs að veðja á misskilning því hitt væri afar óviðeigandi.“

Þingmálið sem Gunnar Bragi nefnir er ekki frá Sigmundi Davíð, flokksformanni hans, heldur frá Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni, þingmönnum Flokks fólksins. Þau lögðu fram þessa tillögu 19. nóvember 2019: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.“

Skrumflokkarnir á alþingi takast nú á um þetta einkennilega mál. Gunnari Braga tókst greinilega í fyrra að sannfæra Sigmund Davíð um að ekki væri við hæfi að hann flytti tillögu til þingsályktunar sem fól í sér vantraust á hann sjálfan. Inga Sæland sá sér hins vegar leik á borði og kýs að gera Gunnari Braga og Sigmundi Davíð óleik með tillögu sem er í raun marklaus.