14.11.2023 6:29

Skroppið til Waterloo

Orrustan við Waterloo var háð 18. júní 1815 og þar sigruðu herir Breta og Þjóðverja undir stjórn Wellingtons og Blüchers her Frakka undir stjórn Napóleons keisara. 

Það tekur tæpar 20 mínútur í lest frá lestarstöðinni í miðborg Brussel til Braine-l'Alleud sem er um 20 km fyrir sunnan Brussel, í Wallóínu í franska hluta Belgíu. Frá brautastöðinni þar er unnt að taka strætisvagninn W að stöð skammt frá minnismerkinu um orrustuna við Waterloo.

Orrustan var háð 18. júní 1815 og þar sigruðu herir Breta og Þjóðverja undir stjórn Wellingtons og Blüchers her Frakka undir stjórn Napóleons keisara. Þá voru liðnir hundrað dagar frá því að Napóleon sneri úr útlegð og reyndi að ná völdum að nýju í Frakklandi.

Orrustan við Waterloo batt enda á feril Napóleons sem var sendur í útlegð til eyjarinnar St. Helenu syðst í Atlantshafi þar sem hann andaðist 5. maí 1821. Deilt er um hvað varð Napóleon að aldurtila en talið er líklegt að það hafi verið magakrabbi.

Sagan hermir að það hafi rignt mikið úrslitadaginn 1815. Í heimsókn til Waterloo mánudaginn 13. nóvember rigndi einnig mikið með roki. Vatnsveðrið gleymdist hins vegar eftir að komið var inn í glæsilegt safn um orrustuna sem var opnað 18. júní 2015 þegar minnst var 200 ára afmælis orrustunnar.

Safnið er neðanjarðar og þar er sagan sögð frá sjónarhóli allra sem áttu þar hermenn en auk Frakka, Breta og Þjóðverja voru hollenskir hermenn á vígvellinum gegn Napóleon. Allt er þarna kynnt með nýjustu tækni.

Þegar þetta safn var opnað hafði orrustunnar verið minnst á annan hátt síðan 1826. Þá reisti hollenska ríkisstjórnin sem stjórnaði Belgíu þau minnismerki: annars vegar hringlaga byggingu sem hýsir eftirgerð af vígvellinum; hins vegar 40 m háan hól til að minnast staðarins þar sem Vilhjálmur I. konungur Hollands var staddur þegar hann særðist í orrustunni.

Þegar farið er um bóka- og minjagripaverslun nýja safnsins mætti halda að Napóleon hefði sigrað en ekki tapað endanlega í orrustunni við Waterloo. Þar skín frægð hans. Skuggi hans hverfur hins vegar ekki af sögu meginlands Evrópu og líklegt er að ný kvikmynd um hann verði enn til að varpa ævintýraljóma á blóðuga sögu hans og einræðisstjórnar.

Hér eru nokkrar myndir frá heimsókn til Waterloo:

IMG_8632Þarna sést hringlaga sýningarhúsið og hóllinn sem Hollendingar reistu 1826 við Waterloo til minningar um orrustuna 1815. Það ringdi mikið mánudaginn 13. nóvember 2023 eins og gerði orrustudaginn 18. júní 1815.

IMG_8667Í hringsýningunni frá 1826 eru myndir sem sýna vígvöllinn auk leikmuna..

IMG_8661Napóleon í alllri sinni keisaradýrð á sýningunni frá 2015. Af myndum og munum í safnbúðinni má ráða að gestir hafi mestan áhuga á Napóleon.

IMG_8651Gengið til orrustu. Frakkar til vinstri á myndinni, Bretar til hægri.

IMG_8649Þarna sést Napóleon leggja á ráðin mewð foringjum sínum í upphafi átakanna. 

IMG_8652Kvöldverður sigurvegaranna.