18.3.2023 10:56

Skrípaleikur Sigmars

Þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar fylgdust með hverju skrefi málsins fyrir hönd Frigusar II og Ólafur Arnarson, blaðamaður Fréttablaðsins, gerði það sama.

Í Kastljósi í vikunni lét stjórnandinn, Bergsteinn Sigurðsson, það líðast að Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi fréttamaður ríkisútvarpsins, færi hvað eftir annað með rangt mál. Sigmar sagði tvær skýrslur liggja fyrir frá ríkisendurskoðun um starfsemi Lindarhvols frá 2016 til 2018. Það liggur ekki fyrir nema ein skýrsla birt árið 2020. Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, tók saman efni um Lindarhvol en lauk aldrei við gerð skýrslu. Við gerð skýrslunnar 2020 var stuðst við vinnuskjöl Sigurðar, sjö sinnum hefur úrskurðarnefnd upplýsingamála hafnað ósk um birtingu þeirra og ríkisendurskoðandi segir að þau verði ekki birt.

Nýjasta uppgötvun Sigmars er að það sé „einhvers konar heimsmet í skrípaleik“ að meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins vilji fá Sigurð Þórðarson á sinn fund í næstu viku.

Lætur Sigmar eins og það sé einsdæmi að þingnefnd fái embættismann sem bundinn er þagnarskyldu um embættisstörf sín á sinn fund. Auðvitað er það alrangt hjá þingmanninum. Sigmar er eins og aðrir bundinn af þeim lögum og reglum sem gilda um trúnaðarmál en getur samt tekið þátt í opinberum umræðum og talað af slíkum belgingi að vaxandi athygli vekur.

Landsréttur féllst á kröfu lögmanns Frigusar II um að Sigurður Þórðarson bæri vitni í bótamáli Frigusar II gegn Lindarhvoli ehf. og ríkinu vegna þess að tilboði Frigusar II í Klakka (áður Exista) var hafnað. Sneri landsréttur við héraðsdómi um að Sigurður mætti ekki bera vitni.

R

Þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar fylgdust með hverju skrefi málsins fyrir hönd Frigusar II og Ólafur Arnarson, blaðamaður Fréttablaðsins, gerði það sama.

Sigurður Þórðarson bar vitni í máli Frigusar II fimmtudaginn 26. janúar og segir í frásögn Ólafs Arnarsonar í Fréttablaðinu að Sigurður hafi lýsti sig ósammála mörgu í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols frá því í apríl 2020. Hann vildi þó ekki tjá sig nánar um þau atriði sem hann væri ósammála í skýrslu ríkisendurskoðunar.

Fjölskipaður héraðsdómur hafnaði öllum kröfum Frigusar II á hendur Lindarhvoli ehf. og ríkinu með dómi sem var birtur föstudaginn 17. mars.

Í frétt Fréttablaðsins 18. mars telur Ólafur Arnarson athyglisvert við dóminn að þar sé vitnað til „ósamþykktrar skýrslu“ ríkisendurskoðunar frá apríl 2020 en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hafi „ekki séð sér fært að afgreiða skýrsluna án þess að fá greinargerð Sigurðar Þórðarsonar til hliðsjónar“.

Það breytir engu um það sem segir í skýrslu ríkisendurskoðunar hvort þingnefnd afgreiði hana eða ekki. Nefndin getur sagt álit á skýrslum eða ekki en skýrslan stendur. Nú kemur hins vegar í ljós að málsvarar Frigusar II hafa talið sér til framdráttar að þingmenn stjórnarandstöðunnar stofnuðu til deilna um samantekt Sigurðar Þórðarsonar til að hafa áhrif á dómarana. Það er von að Sigmar Guðmundsson hafi verið hávær undanfarna daga. Skrípaleikurinn er hans – er ekki Viðreisn á móti sérhagsmunagæslu? Verður hún meiri en birst hefur hjá Samfylkingunni og Viðreisn vegna þessa dómsmáls Frigusar II undanfarið? Ekki má gleyma að Miðflokkurinn spilaði einnig með Frigusi II.