Skrímslin í eigin flokki
Þegar vinstrisinnar verða rökþrota hrópa þeir gjarnan: Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins! Við hverja þeir eiga er óljóst enda ávallt um eðlislægt hræðsluóp að ræða.
Guðmundur Hörður Guðmundsson kynningar- og vefstjóri Háskóla Íslands sagði á X, áður Twitter, laugardaginn 16. nóvember:
„Í dag er glatt í höfuðstöðvum útgerðar- og fjármálafyrirtækja. Til hamingju skrímsladeild Sjálfstæðisflokks. Ég efast um að það sé til lélegra vinstri en það íslenska - það lætur skrímsladeildinni [svo!] alltaf spila með sig.“
Þessi orð féllu í tilefni af því að Þórður Snær Júlíusson, þriðji maður á lista Samfylkingarinnar með Kristúnu Frostadóttur og Degi B. Eggertssyni í Reykjavíkurkjördæmi norður, lýsti yfir að fengi listinn nægilega mörg atkvæði til að hann kæmist á þing myndi hann ekki taka sæti þar. Í yfirlýsingu 16. nóvember sagði Þórður Snær meðal annars:
„Ég er ekki fórnarlamb neinna aðstæðna.“ Og einnig: „Nú er mér ljóst að áframhaldandi vera mín á lista er til trafala og er mörgum þung. Þess vegna tilkynni ég hér með að ég mun ekki taka þingsæti hljóti ég slíkt í kosningunum eftir tvær vikur heldur eftirláta næstu konu á listanum sæti mitt.“
Í þættinum Spursmál sem sagt var frá á mbl.is 12. nóvember sat Þórður Snær ásamt fleirum fyrir svörum hjá Stefáni Einari Stefánssyni. Þar voru skrif frá árunum 2006-2007 á bloggsíðunni www.thessarelskur.blogspot.com borin undir Þórð Snæ.
Skrifin eru öll undir dulnefni höfundar sem kallar sig German Steel eða „þýska stálið.“ Komust þau fyrst í opinbera umræðu þegar Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan kærði Þórð Snæ til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna bloggfærslu undir sama dulnefni.
Þessi upprifjun varð til þess að fleira var nefnt til sögunnar sem þótti sýna mikinn dómgreindarbrest Þórðar Snæs. Guðmundur Andri Thorsson, fv. þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þó m.a. á Facebook:
„[Ég] efast ekki um að þinginu væri mikill fengur að þeim manni sem hann er í dag, þótt 25 ára gaurinn sem bloggaði sé hins vegar best geymdur sem minning um seinþroska mann“.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. formaður Samfylkingarinnar, var á sömu línu og Guðmundur Andri en snerist síðar gegn Þórði Snæ. Kristrún flokksformaður fékk greinilega áfall „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann þegar ég las þetta,“ sagði hún en gekk ekki gegn Þórði Snæ og sagði að það væri hans ákvörðun að ætla ekki að taka kjöri.
Hér er aðeins tekið saman brot af öllu því sem sagt hefur verið um þetta mál. Þar hafa samherjar Þórðar Snæs í Samfylkingunni verið virkastir. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem ritstýrði Heimildinni með honum sendi Þórði Snæ tóninn í orrahríðinni og sagði: „Þú talar um auðmýkt, en það er erfitt að gera lítið úr og biðjast auðmjúklega afsökunar á sama tíma.“
Þegar vinstrisinnar verða rökþrota hrópa þeir gjarnan: Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins! Við hverja þeir eiga er óljóst enda ávallt um eðlislægt hræðsluóp að ræða eftir að þeir hafa verið kýldir í magann af einhverjum í eigin hópi. Guðmundur Hörður Guðmundsson kynningarstjóri HÍ féll í þessa gryfju núna. Til að halda trúverðugleika ætti hann að afturkalla orð sín.