27.7.2021 10:48

Skrímslavæðing Kína – Rússagrýlan

Rússneska sendiráðið hefur hins vegar aldrei gengið jafnlangt opinberlega og það kínverska með því að setja einstakling á svartan lista vegna orða sem hann lét falla um Rússland.

Frá því að Joe Biden tók við embætti forseta Bandaríkjanna hafa háttsettir embættismenn utanríkisráðuneyta landanna hist á tveimur fréttnæmum fundum. Utanríkisráðherrarnir í Alaska í mars þegar kínverski ráðherrann sakaði Bandaríkjamenn um hroka og hræsni. Í gær (26. júlí) hittust háttsettir embættismenn ríkjanna í borginni Tianjin í austurhluta Kína. Þar sakaði kínverski fulltrúinn Bandaríkjamenn um að skrímslavæða (e. demonize) Kína.

Kínversk stjórnvöld nota þetta sterka orð meðal annars um þá sem telja hugsanlegt að rekja megi COVID-19-faraldurinn til veirurannsóknarstofu í kínversku borginni Wuhan. Frá því fyrir tæpum tveimur árum hafi skipulega verið reynt að hylma yfir útbreiðslu veirunnar af kínverskum stjórnvöldum.

Í Bandaríkjunum er jafnframt fullyrt að áhrifamenn á sviði heilbrigðisvísinda þar vilji ekki að upptök veirunnar séu rannsökuð til hlítar vegna þess að þeir beittu sér fyrir fjárstuðningi til rannsóknarstofunnar í Wuhan. Til að villa um fyrir stjórnvöldum og almenningi hafi þeir meðal annars misnotað aðra vísindamenn og virta læknatímaritið Lancet til að beina athygli að matarmarkaði og leðurblökum frekar en rannsóknarstofunni. Þá hafi forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), skjólstæðingur Kínverja, gengið í lið með þessum blekkingarsmiðum.

WHO sendi rannsóknarhóp til Wuhan fyrr á árinu. Hann skilaði ekki afdráttarlausri niðurstöðu um upptök kórónuveirunnar. Nú vill WHO rannsaka málið betur og þá lokar Kínastjórn landinu og hefur í heitingum við ríkisstjórnir landa sem vilja óhlutdræga, alþjóðlega rannsókn. Hafa Ástralar orðið illa fyrir barðinu á Kínverjum vegna þessa.

16973055791627302296Þessi deila er í raun um svo risastórt mál að erfitt er að greina alla þræði þess en þó er það einfalt eins og blasir við öllum þjóðum heims sem berjast við Wuhan-veiruna og afbrigði hennar. Kínversk yfirvöld þagga ef til vill endalaust niður í eigin þegnum með hótunum og ofbeldi en það er meira að segja þeim ofvaxið að uppræta efasemdir um upphaf faraldursins með stóryrðum og annars konar bægslagangi.

Kvartanir Kínverja undan því sem þeir kalla „skrímslavæðingu“ af hálfu Bandaríkjanna eru af sama toga og þegar rússneskir embættismenn vega að gagnrýnendum á stjórnarhætti í Rússlandi með því að saka þá um að vilja vekja upp „Rússagrýlu“. Frá því að Vladimir Pútin náði undirtökunum í Rússlandi hafa sendiráðsmenn hans hér notað þetta orð um Íslendinga sem gagnrýna Rússa.

Rússneska sendiráðið hefur hins vegar aldrei gengið jafnlangt opinberlega og það kínverska með því að setja einstakling á svartan lista vegna orða sem hann lét falla um Rússland. Þess í stað hafa Rússar gripið til innflutningsbanns á matvæli frá Íslandi og staðið fyrir áróðri um að bannið megi rekja til mótmæla íslenskra stjórnvalda við rússneskt ofríki gegn Úkraínumönnum.

Hörundsárir einræðisherrar bregðast illa við gagnrýni hvaðan sem hún kemur. Sé þeim ekki svarað af frjálshuga ríkjum er hætta á ferðum. Kröfunni um að upplýst sé um upptök veirunnar ber að fylgja fram af þunga.