25.9.2024 12:33

Skrímslafræði Sigmundar Davíðs

Spennandi verður að fylgjast með hvernig tekst að beita aðferðum skynsemishyggju til að ná utan um popúlískar skoðanasveiflur og skrímslafræði Sigmundar Davíðs.

Í ágúst 2009 sá Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, tilefni til að ræða um „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins vegna skoðana minna. Þá minntust Smáfuglarnir á vefsíðunni www.amx.is

þess, að í sjónvarpsþættinum Næturvaktinni, þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birtist einu sinni sem leikari hafi hugtakið „skrímsladeild“ verið notað. Bensínafgreiðslumaðurinn Georg Bjarnfreðarson, montinn en vansæll vinstri maður með ótal háskólapróf, sagði við Hannes Hólmstein að hann væri fulltrúi „skrímsladeildarinnar“. Smáfuglarnir veltu fyrir sér hvort líta beri á Gunnar Helga Kristinsson sem fyrirmynd Georgs eða eftirlíkingu.

Margir urðu til þess á sínum tíma að hrósa Hannesi Hólmsteini fyrir þátttökuna í þættinum með Georgi (Jóni Gnarr). Valgeir Helgi Bergþórsson sagði meðal annars á síðu sinni 9. desember 2007 „þetta er með því fyndnara sem ég hef séð, enda verð ég að hrósa honum Hannesi fyrir að hafa svona mikinn húmor fyrir sjálfum sér“.

Yfirlæti Georgs með öll háskólaprófin sín á bensínstöðinni kemur mér í huga þegar ég les á mbl.is að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi endurtekið í sjónvarpsþættinum Spursmál sem blaðið sýnir að ég væri eins manns „skrímsladeild“ í Sjálfstæðisflokknum af því að ég minnti á að Sigmundi Davíð hentaði ekki núna að minnt væri á að hann skrifaði í desember 2015 undir Parísarsamkomulagið um loftslagsmál. Það er nú ígildi alþjóðalaga og bindur meðal annars Ísland. Á mbl.is segir Sigmundur Davíð að það sé flökkusaga á vegum Sjálfstæðisflokksins að hann beri ábyrgð á eigin undirskrift!

Screenshot-2024-09-25-at-12.32.03

Sigmundur Davíð var þá forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Með honum stóðu að samningum um aðild að Parísarsamkomulaginu flokkssystkini hans, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Það er svo sem í samræmi við annað að Sigmundur Davíð vilji skella allri ábyrgð í þessu máli á þau þegar honum hentar ekki lengur að slá sér upp á því.

Þegar Sigmundur Davíð fór í fótspor Georgs Bjarnfreðarsonar og Gunnars Helga og kallaði mig „skrímsladeild“ í grein í Vísi svaraði ég honum þar 7. júlí og benti á að loftslagsmálin væru ekki eini málaflokkurinn sem sýndi að Sigmundur Davíð vildi fela fortíð sína. Þegar grein mín var skrifuð hafði ég tekið saman lista yfir fimm málefni líðandi stundar þar sem Sigmundur Davíð hefur lýst fleiri skoðunum en einni.

Nýlega gekk Anton Sveinn McKee ólympíufari til liðs við Sigmund Davíð af því að stefna hans og Miðflokksins, sérstaklega skynsemishyggja og sígilt frjálslyndi, höfðaði til sín. Skynsemishyggja væri hugmyndafræði sem legði áherslu á að ákvarðanir væru „teknar á grundvelli staðreynda. Í stað þess að láta tilfinningar eða popúlískar skoðanir stýra för“.

Spennandi verður að fylgjast með hvernig tekst að beita aðferðum skynsemishyggju til að ná utan um popúlískar skoðanasveiflur og skrímslafræði Sigmundar Davíðs.