17.3.2025 8:52

Skriður á skógarhöggi

Í nokkur ár hefur legið ljóst fyrir að annaðhvort yrðu tré felld í Öskjuhlíð eða Reykjavíkurflugvöllur lokaðist. Undir forystu Dags B. Eggertssonar neitaði meirihluti borgarstjórnar að horfast í augu við þessa staðreynd. 

Í nokkur ár hefur legið ljóst fyrir að annaðhvort yrðu tré felld í Öskjuhlíð eða Reykjavíkurflugvöllur lokaðist. Undir forystu Dags B. Eggertssonar neitaði meirihluti borgarstjórnar að horfast í augu við þessa staðreynd. Eftir brottför Dags B. úr borgarstjórn tók málið nýja stefnu.

Fimmtudaginn 13. mars 2025 samþykkti borgarráð loks aðgerðaráætlun umferðar- og skipulagsráðs borgarinnar frá 12. mars 2025 um trjáfellingar í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis.

Á meðan aðgerðaáætlunin var unnin voru felld um 730 tré í fyrri áfanga verksins. Í öðrum áfanga er fyrirhugað að fella 700-900 tré til viðbótar. Verkið er unnið af Tandrabrettum ehf. sem notar sérhæfðar vélar til að fella trén og flytja bolina út úr skóginum, undir stjórn Reykjavíkurborgar. Í þriðja áfanga verða allar greinar hreinsaðar úr skóginum. Áætlað er að rúmmál þessa efnis verði um 6.000-7.000 rúmmetrar eftir annan og þriðja áfanga.

Í frétt Morgunblaðsins 14. mars segir að tilboð Tandrabretta hafi verið rétt um 20 milljónir. Fella þurfi um 950 tré, draga alla trjáboli og greinar út úr skóginum frá fyrri aðgerð og kurla trjágreinar. Heildarkostnaður vegna verksins sé áætlaður um 45 milljónir króna. Áður hefði Reykjavíkurborg gert ráð fyrir því að kostnaður vegna trjáfellinganna gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna.

Augljóst er af bókunum meirihlutans í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði að mikil ólund er í hópnum vegna þessarar niðurstöðu.

Í umhverfis- og skipulagsráði bókaði meirihlutinn: „Við teljum enn fremur að eðlilegast sé að ríkið standi straum af kostnaði trjáfellingarinnar. Hún er ekki í þágu borgarbúa.“ Undir greiðslu kostnaðarins tók meirihlutinn í borgarráði en hafði vit á að sleppa lokasetningunni um að öryggi á Reykjavíkurflugvelli sé „ekki í þágu borgarbúa“.

Gengið var rösklega til verks við skógarhöggið eins og meðfylgjandi myndir sýna en þær voru teknar sunnudaginn 16. mars:

IMG_1921IMG_1917IMG_1924