4.5.2020 9:09

Skref út úr þjóðarsóttkví

Tímann hljóta margir að nýta til að íhuga leiðir til að laga sig að breyttum aðstæðum. Ríkisvaldið er hvorki hugmynda- né aflgjafi í því efni heldur framtakssamir einstaklingar og fyrirtæki þeirra.

Í dag (4. maí) er stigið skref út úr þjóðarsóttkvínni vegna COVID-19 farsóttarinnar. Höfuðkapp er lagt á að gengið sé fram af varúð. Í gær talaði Guðni Th. Jóhannesson. forseti Íslands, til þjóðarinnar á daglegum blaðamannafundi Almannavarna. Var þetta síðasti daglegi fundurinn sá 64. í röðinni. Nú verða þeir þrisvar í viku.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti öflugt samstöðu- og þakkarávarp í sjónvarpi. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, sat fyrir svörum í Silfri ríkissjónvarpsins og lýsti meðal annars reynslu sinni af COVID-19-veikindum Dorritar, eiginkonu sinnar, einangrun hennar og sóttkví þeirra hjóna í Mosfellssveitinni.

Ólafur Ragnar tók í máli sínu undir þá skoðun sem hreyft hefur verið að árangurinn hér í baráttunni við veiruna kunni að skapa landi og þjóð samkeppnisforskot við að endurreisa ferðaþjónustuna.

„Hver vill vera í biðröð í London, París, svo maður nefni nú ekki Asíu eða innan um kraðakið á götunum þegar menn eiga kost á því að vera nánast einir í náttúrunni á Íslandi?“ spurði Ólafur Ragnar. Hann sagðist „vita til þess að fjöldi fólks væri tilbúinn að ferðast þrátt fyrir að þurfa að vera í sóttkví“. Nú ætti að „mynda einhverja miðstöð sem sameinar það að fylgjast með fólki, greina það, prófa það, setja það í sóttkví, en líka gefa því tækifæri að fara á Norðurland, Austfirði, Suðurlandið. Við þurfum að hugsa þetta upp á nýtt“.

Katrín Jakobsdóttir sagði að að landamæri Íslands yrðu lokuð til 15. maí en fyrir þann dag muni liggja fyrir áætlun um næstu skref stjórnvalda. Í þessum efnum verður ekkert gert nema í ljósi framvindu mála annars staðar. Tímann hljóta margir að nýta til að íhuga leiðir til að laga sig að breyttum aðstæðum. Ríkisvaldið er hvorki hugmynda- né aflgjafi í því efni heldur framtakssamir einstaklingar og fyrirtæki þeirra.

1200091Frá kynningarfundi vegna farsóttarinnar frá vinstri: Víðir Reynisson Almannavörnum, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Alma Möller landlæknir og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. (Mynd mbl.is)

Í Silfrinu vék Ólafur Ragnar að Kína og Asíuþjóðum og sagði meðal annars:

„Kína verður eina landið sem getur hjálpað Afríku. Ég held að það verði mjög erfitt, á Vesturlöndum, á næstu misserum og árum að telja almenningi trú um það að hinn mikli óvinur okkar á 21. öld sé Asía. Þvert á móti held ég að það verði mjög erfitt en líka ögrandi verkefni fyrir forystusveitir á Vesturlöndum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og fjölmiðlafólk, að hjálpa hinum lýðræðislegu samfélögum að átta sig á þessari nýju heimsmynd.“

Fréttir frá Afríku vegna COVID-19 eru síður en svo allar á þann veg að virðing og áhrif Kínverja vaxi vegna framgöngu þeirra. Utanríkisráðherrar nokkurra Afríkulanda mótmæltu harðlega meðferð á borgurum sínum í Kína, yfirvöld þar hefðu látið óátalið að þeir væri hraktir af stúdentagörðum eða úr fjölbýlishúsum sakaðir um að breiða út veiruna. Efnahagsþrengingar vegna veirunnar sýna að belti-og-braut fjárfestingaverkefnið kínverska er pólitísk aðgerð sem lýkur með kínverskum ítökum greiði samstarfsþjóðirnar ekki lán með vöxtum.

Í The New York Times í dag segir: Across the globe a backlash is building against China for its initial mishandling of the coronavirus outbreak ­– Kínverjar mega þola bakslag um heim allan vegna mistaka þeirra við upphaf kórónaveiru-faraldursins. Afleiðingar veirunnar á alþjóðavettvangi verða ekki síður sögulegar en annars staðar.