23.4.2018 10:50

Skortur á samtali fjölgar framboðum

Þetta dæmi sýnir að almennur borgarbúi fær ekki fund með borgarstjóra. Hann er á annarri plánetu, boðar Miklubraut í stokk fyrir 21 milljarð og borgarlínu fyrir 70 milljarða.

Enn er óljóst hve margir listar verða í framboði til borgarstjórnar Reykjavíkur laugardaginn 26. maí. Dag hvern berst tilkynning um nýjan lista. Miðað við allt sem stjórnmálafræðingar segja um stjórnmálin og flokkana er sérkennilegt að þeir hafi ekki skýringu á reiðum höndum um þessa nýstárlegu byltingu í stjórnmálunum.

Í Morgunblaðinu í dag (23. apríl) er rætt við Birgi Guðmundsson, stjórnmálafræðing og dósent við Háskólann á Akureyri, sem telur að Facebook skipti meiru í sveitarstjórnarkosningum en þingkosningum. Hann segir einnig:

„Staðan í Reykjavík er svo kapítuli út af fyrir sig. Þar virðist ætla að koma fram fjöldi framboða sem þurfa að keppa um athygli kjósenda sem eru tvístraðir um allt, hver í sínum heimi og veruleika. Þar verður tvístraður hópur stjórnmálamanna að fara að tala við tvístraðan hóp kjósenda. Í slíkri stöðu er líklegt að kosningabaráttan muni fara að verulegu leyti fram á netinu og á samfélagsmiðlum og þar með verða dreifð, slagorðakennd, ómarkviss og jafnvel full af hálfsannleik, því hefðbundnir fjölmiðlar ráða illa við að fjalla um kosningabaráttu þar sem svo mörg framboð eru.“

Með öðrum orðum má skilja Birgi á þann veg að fjölda framboða í Reykjavík megi rekja til þess að einstakir hópar sjái framboðsleiðina besta til að vekja athygli á málstað sínum af því að ekki sé unnt að koma honum á framfæri á annan hátt.

Sé tekið mið af öðru viðtali í Morgunblaðinu í dag hefur leiðum almennra borgarbúa til að ná til borgarstjóra einfaldlega verið lokað í tíð Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar.

Rætt er við Aldísi Steindórsdóttur sem berst fyrir rétti geðfatlaðs föður síns. Í grein blaðsins segir að Aldís hafi þurft að bíða frá janúar fram í apríl til að fá viðtal við umboðsmann borgarbúa. Hún vildi að umboðsmaðurinn auðveldaði henni að fá samtal við yfirmenn á velferðarsviði borgarinnar. Umboðsmaðurinn hafnaði því en sagðist sjálfur geta flutt mál Aldísar til annarra embættismanna borgarinnar.

Um miðjan febrúar síðastliðinn óskaði Aldís eftir að fá að hitta Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Henni var í staðinn boðið að ræða við framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Liðu nokkrar vikur þar til samtalið fékkst án þess að það skilaði nokkru.

Þetta dæmi sýnir að almennur borgarbúi fær ekki fund með borgarstjóra. Hann er á annarri plánetu, boðar Miklubraut í stokk fyrir 21 milljarð og borgarlínu fyrir 70 milljarða. Borgarstjóri ver tíma sínum með lánardrottnum frekar en að gæta hags skattgreiðenda – skuldir á íbúa eru hvergi hærri en í Reykjavík og enn skal þeim safnað.

Seilst er dýpra og dýpra í vasa kjósenda en vilji þeir kynna vanda sinn eða annarra er skellt á þá og látið reka á reiðanum.