22.8.2023 11:22

Skorinorður dómsmálaráðherra

Spyrjandinn lagði málið upp á þann veg eins og það væri sök ráðherrans eða ríkisvaldsins að þessir einstaklingar virtu ekki sett landslög. 

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra var skýrmælt í Kastljósi ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (21. ágúst). Viðtalið snerist 95% um útlendingamál og þá staðreynd að hér eru nokkrir einstaklingar sem neita að fara að lögum og njóta þeirra réttinda sem af samstarfi við yfirvöld leiðir þegar viðkomandi hefur verið gert að yfirgefa landið.

Spyrjandinn lagði málið upp á þann veg eins og það væri sök ráðherrans eða ríkisvaldsins að þessir einstaklingar virtu ekki sett landslög. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrum og öðrum er „stillt upp“ frammi fyrir slíkum spurningum þeirra sem telja sig óhlutdræga í útlendingamálum en vinna hins vegar leynt og ljóst að því að afvegaleiða umræðurnar í þágu þeirra sem sniðganga eða brjóta lögin.

Dómsmálaráðherra svaraði skýrt og skorinort að vissulega hefðu menn rétt til að sækja hér um hæli sem flóttamenn en þeir hefðu einnig skyldu til að fara að niðurstöðum þeirra sem um mál þeirra fjölluðu og hlíta niðurstöðunni. Um það snýst mál þeirra einstaklinga sem nú eru í kastljósinu og fara að einhverju leyti huldu höfði, megi marka fréttir.

IMG_7876

Fréttastofa ríkisútvarpsins ber ríka ábyrgð í þessu máli. Hún hefur hvað eftir sýnt konur frá Nígeríu í dramatísku hugarástandi frammi fyrir myndavél fréttamanns sem segist fyrstur hafa komið á vettvang og hringt á sjúkrabíl og lögreglu vegna þess hve honum var brugðið.

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður hefur árum saman varað við því í greinum í Morgunblaðinu hvert stefndi í útlendingamálum. Hann segir í dag að grein sem hann birti í síðustu viku hafi vakið mikla athygli en ástandið sé miklu verra en hann hugði, sagði hann þó að sómalísk gengi hefðu skotið hér rótum. Nú segir hann: „Útlendir glæpamenn, Sómalar, Palestínumenn og Albanar, eru farnir að hóta lögreglumönnum lífláti og fjölskyldum þeirra.“

Alþingismenn hafa hvað eftir annað staðið gegn því að lögregla fengi rannsóknarheimildir til að auðvelda henni að takast á við þá sem hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra á þennan veg. Í gærkvöldi spurði kastljósmaðurinn dómsmálaráðherra hvort hún ætlaði að beita sér fyrir lagasetningu um „forvirkar rannsóknarheimildir“. Þá lá við að hann spyrði hvort hún „ætlaði virkilega“ að gera þetta. Vonandi heldur ráðherrann áfram að hamra á nauðsyn rannsóknarheimilda í samræmi við breytta tíma.

Einar S. Háldánarson víkur að því að nú hafi 23 lögaðilar gert kröfu um að lögbrot verði umborin á Íslandi. Honum komi ekki á óvart að sjá Agnesi Sigurðardóttur eða Rauða krossinn á lista yfir þá „sem eindregið vilja brjóta lög“ en honum „er þung byrði“ að sjá Hjálpræðisherinn, með No Borders-samtökunum. No Borders vilji einmitt það sem þau segi og þá hættir „íslensk þjóð og íslensk tunga að vera til. Það yrði eitt mesta menningarslys sögunnar“. Einar S. Hálfdánarson spyr í lokin: „Hvað er að íslenskum blaðamönnum? Hvað amar að ykkur? Hafið þið alls enga siðferðiskennd? Alls enga líkt og „blaðamenn“ Heimildarinnar?“

Er nema von að spurt sé í ljósi fréttanna af lögbrotunum sem reynt er að réttlæta í hverjum fréttatímanum eftir annan.