Skóflustunga ráðherra og flugvöllurinn
Nú er spurning hvort ráðherrann ætli að líða meirihlutanum í Reykjavík að hunsa samgöngustofu og ISAVIA og loka Reykjavíkurflugvelli með trjágróðri og byggingarkrönum.
Grisjun trjáa í Öskjuhlíð og flugöryggi í Vatnsmýrinni var til umræðu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur þriðjudaginn 21. janúar. Segir Vísir sama dag að umræðurnar hafi verið „heitar“ enda verði austur/vestur braut flugvallarins lokað í næstu viku.
Hildur Björnsdóttir oddviti sjálfstæðismanna segir að „störukeppni“ sé á milli borgarstjórnar, ISAVIA og samgöngustofu. Hún hafi leitt til þess að samgöngustofa krefjist lokunar annarrar brautar flugvallarins.
Haft er eftir Einari Þorsteinssyni, borgarstjóra og oddvita Framsóknarflokksins, að flokkurinn hafi þá skýru afstöðu sem sé jafnframt stefna borgarinnar að „tryggja flugvöllinn á meðan hann er í Vatnsmýrinni“. Hann segir jafnframt að óskýrt sé hvað í erindi samgöngustofu felist, hvað borgin eigi að gera, á hvaða lagagrundvelli „þetta“ byggi og hvaða tré séu þarna undir. Þá sakar hann ISAVIA um „óreiðu“ og stjórnsýslan hafi „kannski ekki verið alveg upp á tíu“.
Í frétt Vísis segir: „Að sögn Einars gæti einhver lögsótt Reykjavíkurborg ef að öll trén í Öskjuhlíð yrðu felld. Borgarstjórnin þurfi því að gæta sín en á sama tíma bregðast hratt við.“
Öll viðbrögð borgarstjórans bera merki um uppnám vegna þessa máls og að hann hafi ekki full tök á því. Hann talar út og suður um efni málsins og tekur meira upp í sig en þeir sem bera öryggi flugfarþega og afnot af flugvellinum fyrir brjósti. Það er alrangt að ætlunin sé að spilla Öskjuhlíð sem útivistarsvæði, þvert á móti myndu fáir sakna skóglendisins sem yrði grisjað.
Meirihluti borgarstjórnar hefur allt frá sumrinu 2023 verið í þeim stellingum að nota trén í Öskjuhlíð til að ná því markmiði sínu að spilla sem mest fyrir umferð um Reykjavíkurflugvöll. Það blasir við öllum að annarleg sjónarmið ráða þar en ekki öryggissjónarmið.
Fyrsta skóflustunga tekin að Fossvogsbrú 17. janúar. ISAVIA telur framkvæmdir við brúna „hafa í för með sér lokun á mest notuðu flugbraut Reykjavíkurflugvallar“. (Mynd: samgönguráðuneytið.)
hafa í för með sér lokun á mest notuðu flugbraut Reykjavíkurflugvallar
Í minnisblaði sem ISAVIA sendi borgarstjórn 6. júlí 2023 var ekki aðeins vikið að hættunni frá trjánum heldur sagði þar einnig:
„Framundan eru áætlanir um mikla uppbyggingu á Borgarlínu í nágrenni flugvallarins m.a. á nýrri brú yfir Fossvoginn. Á framkvæmdatímanum þarf að reisa stóra krana í Fossvoginum sem munu hafa í för með sér lokun á mest notuðu flugbraut Reykjavíkurflugvallar, þ.e. 01-19 [norður/suður braut] í lengri eða skemmri tíma. Það er því afar mikilvægt að búið verði að tryggja fullt nothæfi flugbrautar 13-31 [austur/vestur braut] til þess að hún sé líklegri að geta leyst flugbraut 01-19 af hólmi meðan á framkvæmdum stendur í Fossvoginum vegna Borgarlínu.“
Fyrsta skóflustunga var einmitt tekin vegna þessarar brúar föstudaginn 17. janúar og sagði í tilkynningu vegna hennar að brúin ætti að vera tilbúin um mitt ár 2028 og hefðu framkvæmdir við landfyllingar og sjóvarnir vegna brúarinnar hafist af fullum krafti á Kársnesi í Kópavogi sama dag og Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og önnur fyrirmenni framkvæmdanna tóku skóflustunguna.
Nú er spurning hvort ráðherrann ætli að líða meirihlutanum í Reykjavík að hunsa samgöngustofu og ISAVIA og loka Reykjavíkurflugvelli með trjágróðri og byggingarkrönum.