Skiltið með Degi B. í lúxus á Hafnartorgi
Kosningaskilti með mynd af Degi B. Eggertssyni og fyrirheiti um Miklubrautina í stokk var sett á glugga ósamþykktra stúdíóíbúða.
Kosningaskilti með mynd af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og fyrirheiti um Miklubrautina í stokk var sett á glugga ósamþykktra stúdíóíbúða á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar. Í Fréttablaðinu í dag (22. maí) segir að skiltið hafi verið tekið niður „til að forðast læti“ eins og það er orðað. Athugasemd barst frá nágranna.
„Þarna á bakvið eru stúdíóíbúðir. Þær fást auðvitað ekki samþykktar og ég borga því af þessu eins og um fyrirtæki sé að ræða,“ segir eigandi húsnæðisins.
Ernir tók þessa mynd sem birtist í Fréttablaðinu af gluggunum þar sem skiltið með mynd af Degi B. hékk.
Fréttablaðinu tókst ekki að ná í Dag B. borgarstjóra vegna málsins en Ragna Sigurðardóttir, kosningastjóri Samfylkingarinnar, sagði: „Það er ekki okkar hlutverk að kynda undir deilum í húsfélaginu.“ Hún hafi verið í góðri trú og ekki vitað að fólk byggi í húsnæðinu sem er verslunarhúsnæði.
Fréttin snýst um skiltið með myndinni af Degi B. en hún er jafnframt birtingarmynd húsnæðisvandans í Reykjavík sem magnast hefur stig af stig undanfarin ár. Meira að segja kosningastjóri Samfylkingarinnar trúði því ekki fyrr en á reyndi að stúdíóíbúðir hefðu verið innréttaðar á þessum stað.
Hér hefur verið vakið máls á því að fjöldi heimilislausra vex í Reykjavík á sama tíma og lúxusíbúðum fjölgar, sagt er að þær kosti allt að 400 milljónum króna í nýbyggingum við Hafnartorg.
Kolbrún Bergþórsdóttir fjallar um þetta í leiðara Fréttablaðsins í dag og segir Hafnartorgs-íbúðirnar „hannaðar fyrir þá allra ríkustu“. Þar sem íslenskir auðmenn þoli ekki hverjir aðra sé ólíklegt að þeir „muni hreiðra um sig í þessum lúxusíbúðum“. Íbúðirnar hljóti því að vera hugsaðar fyrir erlenda auðkýfinga sem „vilji eiga hér afdrep þegar þeir þrá tilbreytingu frá lífi í stórborgum á borð við New York, París og Róm“.
Kolbrún er undrandi á að borgarstjórnarmeirihluti vinstrisinna sætti sig við „allan þennan ofurlúxus sem þarna er fyrirhugað að skapa“. Honum hljóti að þykja þetta hið besta mál. Allavega heyrist ekki óánægjuraddir úr þeim ranni. Kolbrún Bergþórsdóttir spyr:
„Finnst Vinstri grænum í borginni það virkilega vera brýnt forgangsmál að hlaða undir auðmenn? Hvar er jafnaðarstefna Samfylkingarinnar, er henni bara veifað stundum en falin þess á milli? Og eru Píratar að breytast í örgustu kapítalista? Er Björt framtíð svo buguð að hún getur ekki lengur tjáð sig? Gott væri að fá svör við þessum spurningum fyrir kosningar. Og um leið á að spyrja þennan sama meirihluta: Eruð þið búin að selja verktökum og fjárfestum sál ykkar og sannfæringu?“
Skiltið með myndinni af Degi B. sem hengt var á ósamþykktu stúdíóíbúðirnar í óþökk nágranna á auðvitað betur heima á lúxusíbúðunum á Hafnartorgi. Þær eru meistarastykki hans til lausnar húsnæðisvandanum í Reykjavík.