2.3.2019 10:55

Skemmdarverkaverkföllin dagsett

Að þetta sé skynsamlegasta leiðin til að ná samningum eins og formaður VR segir núna bendir til þess að hann líti fram hjá allri þróun á vinnumarkaði.

Tilkynning hefur verið birt um skemmdarverkaverkföll Eflingar-stéttarfélags og VR og munu 2.350 starfsmenn í félögunum greiða atkvæði um sex verkföll sem eiga að sögn forráðamanna félaganna að ná til 40 hótela og allra hópferðabifreiðafyrirtækja á félagssvæði beggja félaga.

Verkföllunum er sem sagt beint gegn viðkvæmustu atvinnugreininni vaxtarbroddinum sem er næmastur fyrir öllu áreiti af þessu tagi. Unnt er að grafa undan greininni á skjótan hátt og þar með atvinnu þeirra sem þar starfa. Þeir eru í raun fyrstu fórnarlömb þess sem verða vill beri skemmdarverkaverkföllin þann árangur sem að er stefnt.

Að þetta sé skynsamlegasta leiðin til að ná samningum eins og formaður VR segir núna bendir til þess að hann líti fram hjá allri þróun á vinnumarkaði.

Capture

Unnið er að því að þróa tækni og gervigreind til að losa atvinnustarfsemi úr greipum manna með viðhorf af þessu tagi. Forráðamenn launþegafélaga ættu frekar að líta til framtíðar frá þeim sjónarhóli heldur en að telja félagsmönnum sínum trú um að atlaga að þeirra eigin atvinnuöryggi með eigin verkföllum tryggi best kjör þeirra og starfsöryggi.

Blásið er til atkvæðagreiðslu gegn ferðaþjónustunni á sama tíma og óvissa um framtíð WOW flugfélagsins eykst. Svo virðist sem það hafi verið orðum aukið fyrir nokkrum mánuðum þegar sagt var að tekist hefði að koma félaginu fyrir vind.

Tekist er á um það fyrir félagsdómi hvort Efling hafi boðað á lögmætan hátt til verkfallsins 8. mars. Það nær til ræstingakvenna á hótelum. Tæplega 8000 félagsmenn Eflingar voru á kjörskrá fyrir þetta verkfall. Kjörsókn var aðeins 11%.

Þetta er í samræmi við annað áhugaleysi félagsmanna Eflingar þegar kemur að stjórn og forystu í félaginu. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður lætur þó alltaf í fjölmiðlum eins og hún hafi einnig þögla meirihlutann að baki sér. Þeim mun lengra sem hún gengur til að sýna honum og samfélaginu öllu í tvo heimana því glaðari verður hún og firrtari veruleikanum.

„Þetta eru mjög umfangsmiklar aðgerðir, hannaðar með það fyrir augum að valda hámarkstjóni með sem minnstum tilkostnaði þeirra sem að þeim standa,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í dag (2. mars). Þarna er of vægt að orði komist, aðgerðirnar vega að framtíðaröryggi atvinnugreinarinnar og stuðla að atvinnumissi þeirra sem til þeirra ganga.