21.2.2021 10:36

Skelfing Samfylkingarinnar

Hvað sem sagt er um langlokur og sósíalíska moðsuðu Gunnars Smára er ljóst að hann skelfir Samfylkinguna. Hún hefur gert bandalag við Pírata til að verjast honum.

Það hitnar í kolunum á vinstri væng stjórnmálanna eins og sjá má sé rennt yfir umræður á Facebook í vikulokin eftir að skoðanakönnun sýndi að VG væri orðin stærri en Samfylkingin.

Kart Th. Birgisson, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar þegar hún sleit barnsskónum á árunum 2002 til 2005, skeytir skapi sínu á Kolbrúnu Bergþórsdóttur, menningarritstjóra Fréttablaðsins og gagnrýnanda í Kiljunni hjá Agli Helgasyni.

Karl Th. finnur að því í hvernig skyrtu Kolbrún var í einhverjum þætti Egils og spyr: „Er þetta jafnljótasta skyrta sem hefur sézt í sjónvarpi?“ og einnig: „Þetta hlýtur samt að vera einhvers konar met. Fjandinn hafi það.“

Vakti þetta hörð viðbrögð. Frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, Hallgrímur Helgason rithöfundur, hvatti Karl Th. til að fá sér vinnu. Bubbi Morthens sagði:

„Þessi flík er flott. Þú kalli hins vegar, hefur aldrei geta falið hversu hégómlegur þú ert, þegar kemur að því hvernig þú klæðir þig. Kolla er smart í sínu.“

1248116Myndin er fengin af mbl.is og sýnir pólitísku bandamennina Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur Pírata og Loga Einarsson Samfylkingu.

Gústaf Adolf Skúlason skrifar frá Svíþjóð, styður Trump, andmælir þriðja orkupakkanum og ESB, sem fer fyrir brjóstið á þingmanni Samfylkingarinnar, Guðmundi Andra Thorssyni. Hann berst fyrir pólitískri framtíð sinni á lista flokksins í suðvesturkjördæmi og snýr sér að Gústafi Adolfi og sósíalistum á spjallþræði á FB-síðu Egils Helgasonar og segir um Gustaf:

„Forystumaður KSML og síðar KSMLb á maóistaárunum, og minnir okkur enn á að stjórnmálaviðhorf á ekki að skoða sem línu frá vinstri til hægri heldur skeifu, þar sem öfgarnar eru nánast á sama stað. Öfgamenn yst til hægri eiga auðvelt með að vippa sér yfir á hinn kantinn – eins og dæmin sanna.“

Við þessu bregst Gunnar Smári Egilsson, nú forystumaður Sósíalistaflokks Íslands, og vandar sig ekki:

„Guðmundur Andri Thorsson, Ömurlegur áróður hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju, notaður til að gera litið úr baráttu þeirra sem sætta sig ekki við kúgun elítustjórnmálanna og hvernig fámennar klíkur hafa tekið yfir baráttutæki alþýðunnar. Að þú skulir nenna þessa [svo!], bera á borð andróður gegn stéttabaráttu, kröfum um róttækara [svo!] samfélagsbreytingar, um að almenningur fái völd en auðvaldið svipt þeim. Skömm af því að þetta komi upp úr þingmanni flokks sem er samsuðu [svo!] úr öðrum, þar með þeim sem geymdu [svo!] sögu verkalýðsbaráttu á síðustu öld, að þingmenn þessa flokksræsknis séu farnir að hljóma eins og Varðbergsmenn.“

Agli Helgasyni er nóg boðið vegna þessarar færslu Gunnars Smára á þráð sinn og veltir fyrir sér hvort Gunnar Smári sé ekki að ræna þræði sínum og hann ætti að fara annað með „þessa langloku“. Hann segir Gunnar Smára alltaf svara „með sama pistlinum sem nú birtist hér í þúsundasta sinn.“

Hvað sem sagt er um langlokur og sósíalíska moðsuðu Gunnars Smára er ljóst að hann skelfir Samfylkinguna. Hún hefur gert bandalag við Pírata til að verjast honum. Samstaða Samfylkingar og Pírata birtist hvað skýrast í stjórnarskrármálinu. En eru þeir þar ekki á báti með sósíalistum Gunnars Smára? Myndi Gunnar Smári og Gústaf Adolf skeifu skipa Samfylking og Píratar sér innan hennar. Logi Einarsson vill sameina vinstrisnna gegn Sjálfstæðisflokknum.