11.11.2024 9:38

Skattastefna Samfylkingarinnar

Víðir svaraði í samræmi við það sem hann taldi falla að stefnu þess flokks þar sem hann skipar oddvitasæti í mikilvægu kjördæmi.

Nú er látið eins og Víðir Reynisson, efsti maður á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, hafi verið leiddur í gildru af blaðamanni Morgunblaðsins þegar hann sagði að skattatillögur flokks hans miðuðu að því að minnka ehf-gatið svonefnda, það er að hækka skatta á einyrkja, einkum í hópi iðnaðarmanna en í raun einnig bænda og allra sem falla undir það sem stundum er lýst sem litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Auðvitað var Víðir ekki leiddur í neina gildru. Maður sem starfað hefur árum saman sem yfirmaður innan lögreglunnar og tekið að sér flókin öryggisverkefni af ýmsu tagi er ekki leiddur í gildru í hlaðvarpsþætti. Hann svaraði í samræmi við það sem hann taldi falla að stefnu þess flokks þar sem hann skipar oddvitasæti í mikilvægu kjördæmi.

Víðir gefur þá skýringu að þess sé ekki að vænta að hann hafi meint það að hækka ætti skatta á trésmiði þar sem hann hefði sjálfur starfað sem smiður. Þessi skýring er ekki haldbær frekar en gildrukenningin. Víðir svaraði í samræmi við meginkosningamál Samfylkingarinnar um að „brúa eigi gatið“ og auka jafnframt opinber umsvif á öllum sviðum og hækka skatta til að ná þeim markmiðum.

Screenshot-2024-11-11-at-10.37.22

Eftir því sem þessi stefna skýrist betur og afleiðingar hennar hrópa frambjóðendurnir Jóhann Páll Jóhannsson og Þórður Snær Júlíusson, sem telja að frekar eigi að taka mark á sér en Víði við útlistun á skattastefnu Samfylkingarinnar, að ekki eigi að hækka tekjuskatt – þá má einfaldlega gagnálykta að alla aðra skatta eigi að hækka.