Skarð fyrir skildi
Óli Björn er í hópi þeirra sem munaði um í þingstörfum vegna málefnalegrar afstöðu og áhrifa í þágu hugsjóna.
Óli Björn Kárason segir í Morgunblaðinu í dag (4. des.) að hann ætli að hætta að skrifa greinar í blaðið á miðvikudögum eins og hann hefur gert nær óslitið frá árinu 2012. Hann segir greinarnar nálgast fimm hundruð. Þá segir hann:
„En allt tekur enda. Ég sóttist ekki eftir endurkjöri sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kosningunum síðastliðinn laugardag. Það er því við hæfi að víkja einnig af vettvangi vikulegra skrifa um þjóðfélagsmál.“
Óli Björn sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í SV-kjördæmi frá 2016 en kom frá 2010 inn á þing nokkrum sinnum sem varaþingmaður. Hann var formaður þingflokks sjálfstæðismanna árin 2021-2023.
Af skrifum hans mátti ráða að hann hefði sagt af sér formennsku í þingflokknum vegna þess að honum þótti nóg um samstarfið við VG: Það væri ekki unnt að teygja sig endalaust í málamiðlunum við þingmenn flokksins eða verja stjórnarathafnir þeirra.
Í hugum margra tóku viðvörunarljósin að blikka hraðar vegna þreytu Óla Björns á stjórnarsamstarfinu. Í lokagrein sinni á þeim vettvangi sem hann hefur haft í Morgunblaðinu undanfarin 12 ár vekur hann athygli á þeirri staðreynd að nú sé stefnt að vinstristjórn þrátt fyrir að hægri vindar hafi blásið á kjördag.
Hann segir að „fyrir Sjálfstæðisflokkinn væri það pólitískt glapræði að taka höndum saman við Samfylkingu í ríkisstjórn. Þá lexíu ættu sjálfstæðismenn að hafa lært á síðustu árum.“
Hann segir einnig að erfitt sé að halda öðru fram „en að kjósendur hafi hafnað vinstri ríkisstjórn. Hvort þeir flokkar sem náðu kjöri síðasta laugardag átta sig á þessum skilaboðum er annað mál. Líklega ekki.“
Um leið og undir þetta er tekið skal það einnig áréttað sem Óli Björn segir að sjálfstæðismanna bíði mikið verk við að byggja flokk sinn aftur upp. Þótt flokkurinn hafi sýnt mikinn slagkraft á lokadögum kosningabaráttunnar verði að styrkja góðar undirstöður og sækja fram. Til þess verði að breyta vinnubrögðum og endurnýja heitin sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefið á grunni hugsjóna. Rækta verði sambandið við sjálfstæða atvinnurekendur og launafólk um allt land. Forysta Sjálfstæðisflokksins og kjörnir fulltrúar á þingi og í sveitarstjórnum þurfi að koma fram sem ein heild sem lítur á það sem frumskyldu sína að byggja undir fjárhagslegt sjálfstæði fólks og frelsi þess til orðs og athafna.
Úr Morgunblaðinu 4. desember 2024.
Alls hurfu 33 þingmenn, rúmur helmingur, af alþingi í kosningunum núna annaðhvort vegna þess að þeir buðu sig ekki fram, eins og Óli Björn, eða nutu ekki stuðnings kjósenda. Tveir flokkar hurfu, Píratar og VG, og þar með jaðarinn yst til vinstri.
Nýtt þing verður með nýjum svip þegar það kemur saman. Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum.
Óli Björn er í hópi þeirra sem munaði um í þingstörfum vegna málefnalegrar afstöðu og áhrifa í þágu hugsjóna.