14.6.2020 14:50

Skálholt: Minningartónleikar um Jaap

Um miðbik 20. aldar varð Jaap einn helsti frömuður þess sem kallað er „upprunamiðaður flutningur“ tónlistar.

Tónleikahald að loknum COVID-19-faraldri hófst í dómkirkjunni í Skálholti laugardaginn 13. júní þegar fjölmenni sótti minningartónleika um hollenska fiðluleikarann Jaap Schörder sem andaðist 1. janúar 2020 94 ára að aldri.

Um miðbik 20. aldar varð hann einn helsti frömuður þess sem kallað er „upprunamiðaður flutningur“ tónlistar, það er flutningur á hljóðfæri lík þeim sem á var leikið þegar viðkomandi verk var samið.

Jaap Schröder átti um 70 ára feril sem hljóðfæraleikari, listrænn leiðari og konsertmeistari í hljómsveitum og má þar nefna Academy of Ancient Music í London og Smithsonian Chamber Players í Washington D.C. Hann stofnaði og leiddi Quartetto Esterhazy (1972–1982), Smithson Quartet (1982-1996) Skáholtskvartettinn frá 1996 til dauðadags.

Það voru félagar Jaaps úr Skálholtskvartettinum Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari auk Hildigunnar Halldórsdóttur fiðluleikari sem fluttu kvartettinn Sjö orð Krists á krossinum eftir Joseph Haydn (1732-1809) á minningartónleikunum. Þetta magnaða verk sem tekur rúma 70 mínútur í flutningi var fyrsta verkið sem Skálholtskvartettinn flutti og var það á Skálholtshátíð árið 1996.

Hér fylgja nokkrar myndir frá Skálholti og tónleikunum laugardaginn 13. júní.

KirkjSkálholtsdómkirkja að morgni sunnudags 14. júní 2020. Steinskífur á þakinu voru gjöf frá Norðmönnum og hafa gegnt hlutverki sínu vel frá 1963. Þær eru nú farnar að gefa sig auk þess sem mosi hefur vaxið á þeim eins t.d. má sjá á turnþakinu.

Kirkj2Þorláksbúð er lengst til vinstri, hlaðinn úr torfi fyrir nokkrum árum. Gerð hennar olli deilum. Hún fellur betur að umhverfinu eftir að viðurinn í framhlið hennar tók á sig dökkan lit. Lengst til hægri sést hornið á húsi sem reist var fyrir Skálholtsbiskup en er nú gestastofa.

Kvart3Hljóðfæraleikarar taka við þökkum áheyrenda. Frá hægri: Rut, Hildigunnur, Svava og Sigurður.

TonlÁheyrendur fara úr kirkju að tónleikum loknum.