29.12.2017 10:18

Sjörnustríðsmynd slær enn í gegn

Myndin hefur hlotið góðar viðtökur gagnrýnenda. Þegar 345 umsagnir höfðu verið teknar saman á vefsíðunni Rotten Tomatoes mældist ánægja með myndina 91%.

Nú er stjörnustríðsmyndin Síðasti Jeddinn (The Last Jedi) sýnd í SAM-bíóum hér á landi og um heim allan. Heimsfrumsýningin var í Los Angeles 9. desember 2017 og Evrópufrumsýning í London 12. desember.

Miðvikudaginn 27. desember 2017 hafði myndin halað inn 445,2 milljónir dollara í Bandaríkjunum og Kanada og 446,9 m. dollara annars staðar, samtals 892,1 m dollara (tæplega 13 milljarða ISK). Talið er að Disney-félagið hafi þurft að krækja sér í 800 milljónir dollara til að hafa upp í kostnað við myndina. Það er því enn einu sinni á grænni grein.

Þetta er opinbert kynningarspjald um myndina frá Disney og Lucasfilm.

Myndin hefur hlotið góðar viðtökur gagnrýnenda. Þegar 345 umsagnir höfðu verið teknar saman á vefsíðunni Rotten Tomatoes mældist ánægja með myndina 91%. Á vefsíðunni Metacritic er meðaleinkunnin 86% með vísan til 54 umsagna.

Þessar upplýsingar er að finna á Wikipediu og þar má einnig sjá tilvitnanir í dóma sem birst hafa í alkunnum, erlendum fjölmiðlum. Zoller Seits hjá RogerEbert segir til dæmis að myndin segi ævintýralega sögu átaka á milli ástríðufullra hetja og illmenna og velti fyrir sér arfleifð og erfðum auk þess sem mikið sé rætt um hvort endurtaka eigi eða hafna því sem áður hefur gerst.

Enginn þarf að efast um tökin sem kvikmyndagerðarmennirnir hafa á tækninni til að sýna hluti á einstakan hátt. Mannlegi og tilfinningalegi þáttur myndarinnar innan stórbrotinnar tæknilegrar umgjarðar er ekki síðri, þar sem lögð er áhersla á nauðsyn þess að leita sér skjóls á friðsömum stað, draga sig í hlé og safna kröftum til nýrra átaka.

Þetta er í anda þeirrar bylgju sem nú gengur yfir heim vestrænna manna og birtist í meiri áherslu á hugleiðslu og gildi andlegra verðmæta andspænis vélmennum og gervigreind.

Sé horft á myndina með þetta í huga og áhersluna sem lögð er á innri orkuna og vald yfir henni fær hún aðra vídd en birtist í allri tækninni og brellunum sem gera má í krafti hennar.