22.9.2020 11:54

Sjálfstæðismenn sigra í Múlaþingi

Miðað við markmið í kosningabaráttunni náðu sjálfstæðismenn einir því marki sem þeir settu sér. Fyrir stjórnmálaskýrendur er þessi niðurstaða athyglisverð.

Kosin var sveitarstjórn í nýju sameinuðu sveitarfélagi, Múlaþingi, á Austurlandi laugardaginn 19. september. Þar sameinast Borgarfjörður eystri (kjörsókn 80%), Fljótsdalshérað (kjörsókn 59,83%), Seyðisfjörður (kjörsókn 72,57%) og Djúpivogur (kjörsókn 73,56%). Kjörsókn alls: 63,5% en Fljótsdalshérað er fjölmennast af sveitarfélögunum fjórum sem nú eru orðin að einu.

Úrslitin urðu:

B listi Framsóknarflokks: 420 atkvæði, 19%, 2 fulltrúar

D listi Sjálfstæðisflokks: 641 atkvæði, 29%, 4 fulltrúar

L listi Austurlista: 596 atkvæði, 27%, 3 fulltrúar

M listi Miðflokks: 240 atkvæði, 11%, 1 fulltrúi

V listi VG: 294 atkvæði, 13%, 1 fulltrúi.

Þegar fyrst var sagt frá úrslitunum á ruv.is var fyrirsögn fréttarinnar: Stórsigur Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi en henni var síðan breytt af einhverjum með ritstjórnarlegt fréttanef og varð hún þessi: Niðurstöður liggja fyrir í Múlaþingi.

Til þessa hafa framboð kennd við Héraðslistann, Seyðisfjarðarlistann (og jafnvel Fjarðalistann í sveitarfélaginu Fjarðabyggð) verið talin standa saman af stuðningsfólki vinstri flokkanna. Að þessu sinni ákvað VG að bjóða fram sérstakan lista.

Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins sem eiga menn á þingi buðu ekki fram í kosningunum.

Sögulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið frekar lítill á Egilsstöðum/Héraði en öflugur á Seyðisfirði. Flokkaframboð hafa ekki verið á Borgarfirði og Djúpavogi.

Xd_2020Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.

Gauti Jóhannesson. oddviti sjálfstæðismanna í Múlaþingi, leiddi óflokksbundið framboð á Djúpavogi árið 2018 sem fékk 72,5% greiddra atkvæða. Niðurstaða kosninganna bendir til að sterkur leiðtogi, duglegir og öflugir frambjóðendur og samstillt liðsheild hafi leitt til sigurs Sjálfstæðisflokksins. Hann stefndi markvisst að því að fá fjóra menn kjörna. L-listinn setti sér það einnig semn markmið og B-listinn vildi ná þremur. Vilji sveitarstjórnarmenn í Múlaþingi tveggja flokka meirihluta í sveitarstjórninni hefur Sjálfstæðisflokkurinn undirtökin og getur valið á milli L-lista eða B-lista.

Miðað við markmið í kosningabaráttunni náðu sjálfstæðismenn einir því marki sem þeir settu sér. Fyrir stjórnmálaskýrendur er þessi niðurstaða athyglisverð því að sögulega er gjarnan litið á þetta svæði sem kjörlendi fyrir framsóknarmenn og vinstrisinna, þegar það sameinast er mest traust hins vegar sett á Sjálfstæðisflokkinn.

Á vefsíðunni Austurfrétt er í dag (22. september) rætt við Gauta Jóhannesson sem segir að hann ætli að hefja meirihlutaviðræður síðdegis. Þar segir einnig:

„Gauti er annars að jafna sig eftir bílslys sem hann lenti í á sunnudag á veginum um Öxi. Hann segir að hann hafi sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður.

„Þetta gerðist við einbreiðu brúnna við ánna Hemru en þar skall ég á annan bíl,“ segir Gauti. „Þetta var það harður árekstur að hjólastellið að framan brotnaði undan og annað framdekkið á mínum bíl lenti fyrir aftan bílinn.

Gauti segir að miðað við hve harður áreksturinn var sé magnað að hann hafi sloppið með skrámur og engin alvarleg meiðsl hafi orðið í árekstrinum.“