11.7.2021 11:18

Sjálfskaparvíti Svía

Svo virðist sem handsprengjur og bílsprengjur í útlendingahverfum og nágrenni þeirra hafi leitt til algjörrar upplausnar í Svíþjóð.

Það varð stjórnarkreppa í Svíþjóð fyrir hálfum mánuði þegar Vinstriflokkurinn snerist gegn stjórninni vegna ágreinings um skipan húsaleigumála. Ríkisstjórnin féll þegar samþykkt var á hana vantraust. Jafnaðarmaðurinn Stefan Löfven forsætisráðherra ákvað að rjúfa ekki þing. Forseti þingsins gaf Ulf Kristersson, leiðtoga stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Moderatarna, tækifæri til stjórnarmyndunar. Eftir að honum mistókst fékk Löfven umboðið aftur og tókst að fá 176 þingmenn til að styðja stjórn undir forsæti sínu miðvikudaginn 7. júlí og föstudaginn 9. júlí kynnti hann ráðherra nýju stjórnarinnar.

Á sænska þinginu valt á einu atkvæði hvort stjórn Löfvens nyti trausts. Vantraustið var samþykkt með 176 atkvæði og 176 þingmenn vottuðu Löfven síðan traust að nýju. Jafnaðarmenn og græningjar sitja í stjórninni eins og áður. Engir nýir ráðherrar eru í þessu þriðja ráðuneyti Löfvens, hin tvö voru mynduð að loknum þingkosningum 2014 og 2018.

SdlgZ5XDd70oKM-nhStefan Löfven kynnir endurvakta stjórn sína föstudaginn 8. júlí.

Sænska stjórnarkreppan dró að sér athygli hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Meðal annars var fjallað um hana í leiðara Jyllands-Posten sem sagði kreppuna til marks um þann klofning sem einkenni nú sænskt samfélag: Det tidligere så stabile folkhemmet ikke alene knirker og knager i fugerne. Det er mærket af regulære opløsningstendenser, segir blaðið.

Jyllands-Posten segir að vandræði Löfvens séu til marks um að dvínandi fylgi við jafnaðarmenn, undanfarin ár hafi Svíar snúist til hægri. Ástæðan sé einkum fjölgun glæpa innan hópa innflytjenda.

Svo virðist sem handsprengjur og bílsprengjur í útlendingahverfum og nágrenni þeirra hafi leitt til algjörrar upplausnar. Morðum fjölgi út yfir öll mörk miðað við önnur lönd og daglegt ofbeldi á götum úti sé ólýsanlegt. Sverige er virkelig blevet et skræmmeeksempel, segir danska blaðið.

Nú megi líkja ástandinu í Svíþjóð við harmleik og það geri hann ekki betri að um sjálfskaparvíti sé að ræða. Undir forystu borgaralega forsætisráðherrans Fredriks Reinfeldts hafi verið mótuð sú stefna að Svíar ættu að verða mannúðlegt stórveldi, nú hafi þessi sýn breyst í martröð.

Af öllu þessi leiði nú að sænsku borgaraflokkarnir séu ekki algjörlega afhuga samstarfi við Svíþjóðar-demókratana, flokkinn lengst til hægri sem sé þó ekki öfgafyllri en svo í útlendingamálum, að mati danska blaðsins, en að aðhyllast svipaða stefnu í útlendingamálum og dönsku stjórnmálaflokkarnir frá jafnaðarmönnum og þaðan til hægri. Það sé tímabært að stofna til samstarfs við Svíþjóðar-demókratana ekki sé unnt að frysta lýðræðissinnaðan flokk sem njóti umtalsverðs stuðnings kjósenda.

Jyllands-Posten segir sænska fjölmiðla loks tekna til við að fjalla af raunsæi um útlendingamál og Stefan Löfven láti ekki lengur eins og ekki séu nein tengsl milli ofbeldisverka og innflytjenda.

Hér sjáum við skýr merki um að þagað er um þessi tengsl. Þá er þess meira að segja krafist að útlendingastofnun sé aflögð af því að hún fer ekki að kröfu öfgamanna. Í þessu efni eins og mörgum öðrum er betra að læra af reynslu annarra en að glíma við sjálfskaparvítið.