30.10.2024 9:06

Sir Keir í frjálsu falli

Þegar Sir Keir myndaði stjórn sína hafði Verkamannaflokkurinn ekki verið við völd í 14 ár. Strax seig á ógæfuhliðina fyrir flokknum vegna dómgreindarleysis forustumanna hans við landstjórnina.

Kannanir í Bretlandi sýna að Sir Keir Starmer, forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, hafi orðið óvinsælli hraðar en nokkur annar forsætisráðherra í sögu Bretlands.

Vinsældir Sir Keirs mældust plús 11 í júlí 2024 eftir að Verkamannaflokkurinn sigraði í þingkosningum 5. júlí og hlaut 174 sæta meirihluta í neðri deild breska þingsins, mesta meirihluta sinn í 25 ár. Núna mælast vinsældir hans mínus 38 og hafa fallið um 49 stig.

Segir The Telegraph að hann sé þar með óvinsælli en Rishi Sunak, forsætisráðherra Íhaldsflokksins, þegar hann boðaði til kosninganna sem voru í júií. Vinsældir hans stóðu þá í mínus 37 en eru nú mínus 31.

Til samanburðar er nefnt að Sir Tony Blair hafi enn notið plús 46 vinsælda í ágúst 1997, þremur mánuðum eftir að hann leiddi Verkamannaflokkinn til stórsigurs – þá mældust vinsældir hans plús 60. Það var ekki fyrr en sumarið 2000 sem hann hlaut mínus tölu í vinsældakönnun.

Vinsældatölur íhaldsmannsins Davids Camerons urðu ekki neikvæðar fyrr en í upphafi ársins 2011 en hann sigraði Verkamannaflokkinn og myndaði stjórn með Frjálslynda flokknum á árinu 2010. Það var svo ekki fyrr en eftir misheppnuð fjárlög sem vinsældir hans fóru rétt niður fyrir mínus 30.

Boris Johnson var í mínus 20 þegar Íhaldsflokkurinn sigraði undir hans forystu árið 2019, hann var kominn í plús 3 í janúar 2020 og síðan í plús 14 í mars 2020.

Screenshot-2024-10-29-at-17.17.05

Af vefsíðu The Telegraph

Fyrirtækið More in Common gerir þessar kannanir og segir Luke Tryl forstjóri þess að vinsældafall Sir Keirs sé „fordæmalaust“ miðað við aðra forsætisráðherra á okkar dögum.

Hann segir að tvær ákvarðanir ráði mestu um viðhorf almennings til ríkisstjórnarinnar: (1) að afnema niðurgreiðslu á olíu til húshitunar yfir vetrartímann og (2) að láta fanga lausa úr fangelsum áður en dæmdum vistunartíma þeirra lýkur.

Þá nefndi hann einnig umræður um boðsmiða og annað sem ráðherrar hafa fengið ókeypis auk gjafa frá Alli lávarði, auðugum stuðningsmanni Verkamannaflokksins, til Sir Keirs og fleiri í forystusveit Verkamannaflokksins.

Því er spáð að enn halli undan fæti hjá Sir Keir og Verkamannaflokknum þegar áhrifa fyrstu fjárlaga flokksins fer að gæta. Boðaðar skattahækkanir hafa strax orðið til þess að ýmsir sem telja að sér og fjárhag sínum vegið með þeim séu teknir að búa sig undir að flytja á brott frá Bretlandi.

Þegar Sir Keir myndaði stjórn sína hafði Verkamannaflokkurinn ekki verið við völd í 14 ár. Strax á fyrstu vikunum seig á ógæfuhliðina fyrir flokknum vegna dómgreindarleysis forustumanna hans við landstjórnina.

Hér hefur systurflokkur Verkamannaflokksins, Samfylkingin, ekki verið við stjórn síðan 2013. Forystumenn hennar gera sér vonir um stjórnarsetu að kosningum loknum. Dómgreindarleysið er þegar farið að birtast eins og sést af talinu um hvort Dagur B. Eggertsson verði ráðherra eða ekki. Flokksformaðurinn segir að svo verði ekki en Dagur B. svarar: Bíddu bara!