16.12.2024 12:25

Símaþjónusta borgarinnar líka í molum

Í lok álits síns gerir umboðsmaður meira að segja athugasemd við lélega símaþjónustu á þessu sviði borgarinnar og veltir fyrir sér hvort hann verði að grípa til sérstakrar athugunar á henni.

Athygli hefur beinst að yfirstjórn Reykjavíkurborgar og þó sérstaklega umhverfis- og skipulagssviðs vegna Álfabakkageymslunnar sem reist var með leyfi sviðsins og meirihluta borgarráðs 15. júní 2023.

Umboðsmaður alþingis sagði 4. desember frá dæmalausum dónaskap umhverfis- og skipulagssviðs í garð borgarbúa sem beðið hafði árangurslaust í rúm tvö ár, frá 22. ágúst 2022, eftir svari sviðsins við upplýsingabeiðni vegna girðingar á lóðarmörkum.

Í lok álits síns gerir umboðsmaður meira að segja athugasemd við lélega símaþjónustu á þessu sviði borgarinnar og veltir fyrir sér hvort hann verði að grípa til sérstakrar athugunar á henni. Er augljóst að umboðsmanni er mjög misboðið og líklega hefur hann aldrei veitt þeim sem lýtur eftirliti hans áminningu vegna skorts á slíkri grunnþjónustu og raunar almennri kurteisi.

Athugun umboðsmanns vegna kvörtunar borgarbúans sem hafði beðið í rúm tvö ár eftir svari vegna girðingar hófst 6. september 2024 og óskaði embættið eftir gögnum frá umhverfis- og skipulagssviði með bréfi 11. september. Var þess óskað að svör bærust fyrir 25. september.

Svör bárust 18. október frá deildarstjóra lögfræðideildar umhverfis- og skipulagssviðs og voru þau svo óljós að 23. október óskaði umboðsmaður frekari skýringa til að átta sig á hvort beiðnin frá 22. ágúst 2022 hefði verið afgreidd. Engin viðbrögð bárust við ósk umboðsmanns um skýringar. Þá hringdi starfsmaður umboðsmanns „í almennt símanúmer Reykjavíkurborgar“ 29. október og vildi ræða við deildarstjóra lögfræðisviðs eða annan starfsmann sem gæti svarað fyrir málið. Svarið var að deildarstjórinn hefði ekki skráð símanúmer og ekki væri mögulegt að fá samband símleiðis við umhverfis- og skipulagssvið þar sem engu almennu símanúmeri væri til að dreifa. „Frekari tilraunir til að ná í aðra starfsmenn sviðsins báru ekki árangur,“ segir umboðsmaður 4. desember

2546948Úr Sarpi Þjóðminjasafns.

Við svo búið ítrekaði umboðsmaður 29. október fyrri tölvupóst. Þá svaraði deildarstjóri lögfræðisviðs, sá sem ekki hafði skráð símanúmer, og sagðist ætla að „skoða málið“.

Þar sem engin svör bárust frá Reykjavíkurborg þrátt fyrir ítrekun 30. október sendi umboðsmaður sviðstjóra umhverfis- og skipulagssviðs bréf 11. nóvember þar sem hann áréttaði fyrri tilmæli sín.

Þennan sama dag, 11. nóvember 2024, réttum tveimur mánuðum eftir að umboðsmaður alþingis hóf athugun sína var honum tilkynnt að borgarbúinn hefði fengið gögn varðandi girðinguna í samræmi við beiðni hans frá 22. ágúst 2022.

Í Morgunblaðinu í dag (16. desember) gefur Björn Axelsson skipulagsfulltrúi borgarinnar til kynna að reglugerðir heimili þann óskapnað sem blasir við í Álfabakka. Þeim hafi verið breytt á þann veg.

Þetta eru léttvægar mótbárur til málsbóta fyrir umhverfis- og skipulagssviðið sem nú verður ekki aðeins að hugsa hvað til bragðs eigi að taka vegna skemmunnar heldur einnig til að komast í viðunandi símasamband.