Sigurður Ingi stígur til hliðar
Í formannstíð Sigurðar Inga náði Framsóknarflokkurinn mestu fylgi í kosningunum 2021, 17,3%, undir kjörorðinu: Er ekki bara best að kjósa Framsókn.
Hálft ár leið frá því að þingflokkur framsóknarmanna tilkynnti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að hann nyti ekki lengur trausts sem forsætisráðherra þar til opinberlega var gengið gegn honum sem formanni flokksins á miðstjórnarfundi á Akureyri 10. september 2016.
Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður flokksins og forsætisráðherra, fór gegn Sigmundi Davíð og 2. október 2016 var hann kjörinn með 370 atkvæðum, 52,7%. Sigmundur Davíð hlaut 329 atkvæði, 46,8% greiddra atkvæða.
Til alþingiskosninga var gengið 29. október 2016. Í þingkosningunum árið 2013 fékk Framsóknarflokkurinn 24,4% atkvæða og 19 þingmenn. Árið 2016 fékk hann 11,5% og átta þingmenn. Þegar Sigmundur Davíð baðst lausnar sem forsætisráðherra 5. apríl 2016 og um þær mundir mældist fylgi Framsóknarflokksins 7% í könnun hjá Gallup.
Sigurður ingi tilkynnir að hann muni starfa sem formaður þar til nýr verði kjörinn í febrúar 2026 (mynd:.mbl.is/Ólafur Árdal).
Þótt framsóknarmenn fengju vissulega skell í fyrstu kosningunum undir forystu Sigurðar Inga voru stærstu tíðindi þingskosninganna 29. október 2016 að stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, fékk ekki nema 5,7% og þrjá þingmenn (alla af landsbyggðinni) út á að hafa fengið einn, Loga Einarsson, kjörinn í norðausturkjördæmi en enga þingmenn hvorki í Reykjavík né í suðvesturkjördæmi. Sjálfstæðisflokkurinn var sigurvegari þessara kosninga með 29%. Lakasta fylgið hlutu sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmunum. Þá sagði hér á síðunni: „Sannast enn að gjörbylting er óhjákvæmileg í starfi sjálfstæðismanna í Reykjavík. Að höfuðborgin skuli vera dragbítur í kosningum staðfestir að þar verður flokkurinn að taka sér tak.“
Þetta er rifjað upp hér vegna þess að á fundi miðstjórnar Framsóknarflokksins laugardaginn 18. október tilkynnti Sigurður Ingi að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs í formennsku á flokksþingi sem ákveðið var að flýta og halda í febrúar 2026.
Í formannstíð Sigurðar Inga náði Framsóknarflokkurinn mestu fylgi í kosningunum 2021, 17,3%, undir kjörorðinu: Er ekki bara best að kjósa Framsókn.
Flokkurinn fór hins vegar niður í 7,4% í kosningunum 2024 eins og hinir flokkarnir sem starfað höfðu saman í ríkisstjórn frá haustinu 2017, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-græn. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hætti sem forsætisráðherra og flokksformaður vorið 2024 og reyndi árangurslaust að verða forseti Íslands þá um sumarið.
Svandís Svavarsdóttir stýrði VG í ófæru og síðan út af þingi 30. nóvember 2024. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins gaf ekki kost á sér til endurkjörs í formennsku á landsfundi í mars 2025.
„Aldrei í 109 ára gamalli sögu sinni hefur Framsóknarflokkurinn staðið jafn vopnlaus og illa á sig kominn,“ sagði Guðni Ágústsson, fyrrv. formaður flokksins, Morgunblaðinu fimmtudaginn 16. október. Flokkurinn mældist „í kringum mörkin á milli lífs og dauða“ þegar fylgið sveiflaðist á milli fjögurra og sex prósentustiga í könnunum. Það er svo sannarlega mikið í húfi þegar Sigurður Ingi kveður formannsstólinn.