Sigmundur Davíð vill símtal við Trump
Ætla má af þessari undarlegu uppákomu að formanni Miðflokksins hafi verið falið af landsþingi flokks síns að knýja forsætisráðherra til að ná tali við Trump í síma.
Nýkominn af landsþingi sínu og enduruppklappaður formaður Miðflokksins lagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) spurningu fyrir Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra á alþingi þriðjudaginn 14. október. Hún snerist um tengslin við Bandaríkin og sérstaklega Donald Trump, forseta þeirra.
Vildi SDG vita hvort ráðherrann og ríkisstjórnin ætlaði „að efla tengsl Íslands við Bandaríkin og styrkja samstarf við þau í sessi“. Hvorki ráðherrann né fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu leitast við að ná „beinu talsambandi við forseta Bandaríkjanna“. SDG spurði: „Verður forseta Bandaríkjanna jafnvel boðið til Íslands?“ Nefndi hann miðnæturgolf sem hugsanlega beitu fyrir Trump!
„Við höfum ekki enn þá átt tvíhliða formlegan fund með Bandaríkjaforseta,“ svaraði Kristrún en hún hefði hins vegar hitt Bandaríkjaforseta í tvö skipti og rætt stuttlega við hann. Þar hefði hún nefnt áhuga okkar á frekari samskiptum, frekari viðskiptum, frekari fjárfestingu og að styrkja varnarinnviði hér.
SDG sagði svar Kristúnar benda til einhvers skorts „á veruleikatengingu“ hjá ríkisstjórninni sem hefði nýverið boðað „að Ísland ætti að verða leiðandi í varnarmálum á norðurslóðum“. Þá dygði ekki að spjalla við menn á göngunum á alþjóðafundum eða halda lyftufund og segja að Ísland vildi gjarnan vinna vel með Bandaríkjunum. Hann spurði hvaða frumkvæði ráðherrann ætlaði að sýna til að treysta samstarf Íslands og Bandaríkjanna.
Kristrún svaraði undrandi: „Ég veit satt best að segja ekki eftir hverju hv. þingmaður er að fiska hérna. Við erum vinir Bandaríkjanna. Ég hef ekkert á móti sterkari og öflugri samskiptum við Bandaríkin.“ Hún sagði að hér yrði „ekki fiskað upp úr þeirri tjörn að þessari ríkisstjórn sé eitthvað í nöp við Bandaríkin“. Hún hefði beðið um fund með Bandaríkjaforseta og beiðninni yrði fylgt fast eftir. Undir þessu svari ráðherrans hrópaði SDG í sífellu utan úr sal: Símtal, símtal!
Ætla má af þessari undarlegu uppákomu að formanni Miðflokksins hafi verið falið af landsþingi flokks síns að knýja forsætisráðherra til að ná tali við Trump í síma.
Frá landsþingi Miðflokksins 11. og 12. október 2025. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ræðustól.
Æskilegt hefði verið að formaður Miðflokksins hefði nefnt málefnalega ástæðu fyrir áhyggjum sínum af samskiptaleysi íslenskra stjórnvalda við Trump. Spurningar formannsins skorti allt efnislegt inntak. Þær má kalla stríðni.
Nýlega kom út skýrsla hóps þingmanna um inntak og áherslur stefnu í varnar- og öryggismálum. Þar segir ekkert um hvaða dilk það kynni að draga á eftir sér í öryggismálum og samskiptum við Bandaríkin ef íslensk stjórnvöld tækju markvissa stefnu inn í ESB.
Þá þegir skýrslan um tvíhliða samskipti Íslands og Kína. Engin afstaða er tekin til gagnrýni í Washington á geimnjósnastöð Kínverja á Kárhóli í Þingeyjarsýslu. Ekki er vakið máls á áhyggjum margra náinna samstarfsþjóða okkar í öryggismálum af Kínastefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist nú í því að forseti Íslands hefur boðið Xi Jinping Kínaforseta til Íslands.
Stríðniskvak SDG í þingsalnum var á skjön við alvarleika öryggismálanna.