7.7.2023 11:13

Sigmundur Davíð trompar Þórhildi Sunnu

 Að þetta Lindarhvolsskjal standi undir öllu því sem sagt hefur verið um efni þess á meðan það var óbirt blasir alls ekki við þegar rennt er yfir það.

Í mörg ár ræddu fjölmiðla- og stjórnmálamenn eða fjölmiðlastjórnmálamenn um símtal milli Geirs H. Haarde, þáv. forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáv. seðlabankastjóra, hrunhaustið 2008 eins og að ætla mætti að þar væri lykillinn að hruninu eða að minnsta kosti eitthvert samsærisbrugg.

Útskrift af símtalinu var birt, því miður ekki fyrr en eftir dúk og disk, og við svo búið féll allt samsæristalið niður. Fjölmiðlastjórnmálamennirnir sleiktu sár sín og söfnuðu kröftum til nýrrar atlögu. Hún var gerð undir heitinu Lindarhvolsmálið og hefur snúist um skjal eða skýrsludrög sem lágu fyrir árið 2018 eftir settan ríkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson, sem gegndi eftirlitshlutverki með sölu sjálfstæða félagsins Lindarhvols á eignum sem komu í hendur ríkisins úr slitabúum eftir hrun.

Umboð Sigurðar féll niður þegar nýr ríkisendurskoðandi var skipaður og skjal Sigurðar fór til fullvinnslu hjá embætti ríkisendurskoðanda sem gaf út endanlega skýrslu um starfsemi Lindarhvols vorið 2020 og hafa alþingismenn haft hana til meðferðar síðan. Ríkisendurskoðendur hafa lagst gegn birtingu ófullburða skjals Sigurðar sem telur sig órétti beittan og hefur nú kært það sem að honum snýr til ríkissaksóknara með ásökunum í garð Lindarhvols.

1425678Sigurður Þórðarson, fyrrv. settur ríkisendurskoðandi vegna Lindarhvols, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata (samsett mynd, mbl.is).

Sama dag og fréttist um kæru Sigurðar ákvað Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, að birta skjal eða skýrsludrög Sigurðar opinberlega og brjóta þannig trúnað sem henni var sýndur sem þingmanni.

Þórhildur Sunna hefur formlega sætt ámæli fyrir brot á siðareglum alþingismanna og kærir sig kollótta um það. Hugsanlega á birtingin af hennar hálfu rætur að rekja til baráttu um athygli milli þingmanna Pírata sem þrá margir að verða frægir að endemum.

Í skjali sínu fer Sigurður löngu máli um skipulagið sem ríkisstjórn og alþingi ákváðu í kringum Lindarhvol þar sem tryggja átti að hvorki seðlabankinn né fjármála- og efnahagsráðuneytið gætu haft nokkur áhrif eftir að algjörlega sjálfstæð stjórn félagsins hefði verið skipuð. Ríkisendurskoðandi hafði allt eftirlit með starfsemi Lindarhvols á sinni hendi en hvorki bankinn né ráðuneytið. Sigurður telur að stjórn Lindarhvols og starfsmaður hafi ekki veitt honum upplýsingar sem hann þurfti til að sinna þessu eftirlitshlutverki sínu.

Að þetta skjal standi undir öllu því sem sagt hefur verið um efni þess á meðan það var óbirt blasir alls ekki við þegar rennt er yfir það. Fjölmiðlastjórnmálamennirnir beina ekki heldur athygli að efni skjalsins eftir að það birtist heldur kvörtunum Sigurðar, meðferð Þórhildar Sunnu á trúnaðargögnum og afstöðu Birgis Ármannssonar þingforseta.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að vísu í Morgunblaðinu í dag að málið sem skýrslan lýsi virðist umfangsmeira heldur en Íslandsbankamálið og vill að alþingi verði kallað saman. Allt skipulagið í kringum Lindarhvol var ákveðið í tíð hans sem forsætisráðherra. Með kröfunni um þingfundi til að ræða hálfkarað skjal Sigurðar og kæru hans til ríkissaksóknara vegna meints sinnuleysis Lindarhvols í garð Sigurðar trompar Sigmundur Davíð meira að segja Þórhildi Sunnu.