4.8.2019 15:06

Siðlaus fórnarlömb

Komist þeir sem sjá um framkvæmd reglnanna að niðurstöðu um brot gegn siðareglunum líta þeir sem lýstir eru brotlegir á sig sem fórnarlömb.

Þingmenn hafa samþykkt að starfa undir siðareglum og öllu því sem þeim fylgir. Komist þeir sem sjá um framkvæmd reglnanna að niðurstöðu um brot gegn þeim líta þeir sem lýstir eru brotlegir á sig sem fórnarlömb. Gert sé ómaklega á hlut þeirra.

Þetta viðhorf birtist þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, var sögð hafa brotið reglurnar vegna ummæla sinna um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Viðhorfið ber einnig hátt nú þegar tveir þingmenn Miðflokksins, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, eru sagðir hafa brotið reglurnar vegna orðbragðs á fundi miðflokksmanna með þáverandi þingmönnum Flokks fólksins á Klausturbar við Kirkjustræti 20. nóvember 2018.

Vegna þess hve forsætisnefnd alþingis komst í mikið uppnám og lét mörg falla um drykkjurausið á Klausturbar reyndist hún vanhæf til að leiða mál miðflokksmanna til lykta. Tveir orðvarir þingmenn, Steinunn Þóra Árnadóttir (VG) og Haraldur Benediktsson (Sjálfstæðisflokki), voru dubbuð upp í embætti 7. og 8. varaforseta alþingis svo að leiða mætti Klausturmálið til lykta.

Ráðgefandi siðanefnd alþingis sagði í áliti frá 25. mars 2019 að hátterni þingmannanna sex á veitingastofunni Klaustri félli undir gildissvið siðareglna fyrir alþingismenn.

Með bréfi, dags. 13. maí 2019, til siðanefndar Alþingis ákvað forsætisnefnd (Steinunn Þóra og Haraldur) að óska eftir að siðanefndin léti í té ráðgefandi álit sitt á því hvort þingmennirnir sex hefðu, hver um sig, brotið gegn siðareglum fyrir alþingismenn að teknu tilliti til athugasemda þingmannanna sem þá höfðu borist.

Ik-j-LnGFGJf_720x460_mf48x_f2Stundin.is birti þessa samsettu mynd af Gunnari Braga Sveinssyni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bergþóri Ólasyni.

Ráðgefandi siðanefndin skilaði áliti sínu 5. júlí 2019 og taldi hún að þingmennirnir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson hefðu brotið gegn siðareglum fyrir alþingismenn. Þingmennirnir fengu tök á að bregðast við álitinu en fimmtudaginn 1. ágúst 2019 lauk meðferð málsins með þeirri niðurstöðu að forsætisnefndin (Steinunn Þóra og Haraldur) féllust á mat siðanefndar frá 5. júlí.

Þeir félagar líta á sig sem fórnarlömb og sömu sögu er að segja um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, sem birtist í beinni útsendingu sjónvarpsfrétta ríkisins fimmtudaginn 1. ágúst og lýsti sjálfan sig sem aðalfórnarlambinu í pólitískum ofsóknum. Á ruv.is segir:

„Sigmundur Davíð segist telja að hann hafi verið aðalskotmarkið og lítið standi eftir. „En þrátt fyrir átta mánaða tilraunir, þar sem menn fóru meira að segja á svig við lög og grundvallarreglur réttarríkisins, tókst ekki að sýna fram á annað en að það hefði ekkert brot átt sér stað,“ sagði Sigmundur.“

Gunnar Bragi Sveinsson lýsti í samtalsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 4. ágúst vantrausti á fréttastofu ríkisútvarpsins fyrir að birta átján fréttir um kynferðislega áreitni Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, gagnvart blaðakonu en sjötíu fréttir um hann sjálfan fyrir mun vægari sakir eins og hann orðaði það.

Fórnarlambaáráttan birtist í ýmsum myndum.