Siðaregla RÚV til BBC
Hann varaði einnig við pólitískri hlutdrægni (e. political bias) og sagði að þeir starfsmenn sem virtu ekki reglur um óhlutdrægni ættu ekki heima meðal starfsmanna BBC.
„Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“
Þetta stendur í siðareglum um starfsmenn ríkisútvarpsins. Nýlegar fréttir hefur mátt skilja á þann veg að siðareglurnar hafi í raun verið óvirkar um nokkurt skeið vegna óánægju starfsmanna með þetta ákvæði. Vegna hennar starfi engin siðanefnd til að framfylgja reglunum.
Umræður um þetta mál verða nú vegna þess að útgerðarfélagið
Samherji óskaði eftir áliti siðanefndarinnar en greip í tómt!
Tim Davie, nýr útvarpsstjóri BBC.
Nýr útvarpsstjóri, Tim Davie, tók við stjórn breska ríkisútvarpsins BBC þriðjudaginn 1. september. Áhugamenn um ríkisrekstur á útvarpi ættu að lesa það sem skrifað er um BBC í breska fjölmiðla um þessar mundir og sjá hvernig afstaðan til útvarpsstöðvarinnar mótast af pólitískum sjónarmiðum. Gagnrýni setur svip á það sem dálkahöfundar í The Daily Telegraph segja en tónninn í garð BBC er jafnan annar í The Guardian sem gjarnan er vitnað til í fréttum RÚV.
Bent er á að BBC standi nú frammi fyrir mætti Netflix og Amazon og svari með að setja sig á háan hest. Í stað þess að skírskota meira til almennings sé sokkið dýpra í ormagryfju sjálfbirgni. Einstefna stórborgar-elítu setji ekki aðeins svip á fréttir og fréttatengt efni heldur í vaxandi mæli á skemmtiefni og leikið efni. Milljónir afnotagjaldsgreiðenda telji sig ekki aðeins afskipta heldur tali BBC beinlínis niður til þeirra, þess vegna sé ekki undarlegt að daglega hætti um 500 manns að greiða afnotagjaldið.
Í nokkrar vikur hefur verið deilt um þá ákvörðun yfirstjórnar BBC að tónverkin Rule, Britannia! og Land of Hope and Glory skyldu flutt án söngtexta á loka Proms-tónleikunum nú í september. Réðst ákvörðunin af tilliti stjórnenda BBC til þeirra sem telja textana í anda nýlendustefnu og þrælahalds. Skömmu eftir að Tim Davie varð útvarpsstjóri var tilkynnt að textarnir yrðu sungnir.
Tim Davie ávarpaði starfsmenn BBC í fyrsta sinn sem forstjóri fimmtudaginn 3. september. Þar sagði hann að stjörnur BBC sem hefðu áhuga á að taka þátt í flokkadráttum (e. partisan campaigns) á samfélagsmiðlum ættu ekki að starfa fyrir útvarpsstöðina.
Hann varaði einnig við pólitískri hlutdrægni (e. political bias) og sagði að þeir starfsmenn sem virtu ekki reglur um óhlutdrægni ættu ekki heima meðal starfsmanna BBC. Þá sagði Davie:
„Viljið þið verða skoðanmyndandi dálkahöfundar eða baráttumenn málstaðar á samfélagsmiðlum ber að virða slíka ákvörðun en þá eigið þið ekki að starfa hjá BBC.“
Innan fárra daga verða settar nýjar reglur um notkun á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum sem hafa bein áhrif á fréttamenn BBC. Það ætti kannski að þýða siðareglu RÚV og senda til BBC?