Síbrot Reykjavíkurborgar
Er hörmulegt að lesa hverja fréttina eftir aðra um í útboðsbrot Reykjavíkurborgar á ábyrgð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
Reglur um útboðsskyldu opinberra aðila eru settar í þeim tilgangi að allir sitji við sama borð gagnvart þeim sem sjá um kaup á þjónustu og vörum af hálfu opinberra aðila. Þá er það jafnframt tilgangur reglnanna að stuðla að gegnsæi í opinberri stjórnsýslu og sporna gegn spillingu innan hennar; stjórnmálamenn sem bera lokaábyrgð á að reglunum sé fylgt mismuni ekki einstaklingum og fyrirtækjum að geðþótta vegna persónulegra eða pólitískra tengsla svo að ekki sé minnst á mútur.
Með þessi grunnsjónarmið að leiðarljósi er hörmulegt að lesa hverja fréttina eftir aðra um útboðsbrot Reykjavíkurborgar undir forystu og á ábyrgð borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.
Orka náttúrunnar er eitt af dótturfélogum Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið framleiðir og selur rafmagn til allra landsmanna (mynd: Visir).
Þrjú dæmi frá sumrinu 2021 skulu nefnd:
Í maí 2021 birtist frétt um brot Reykjavíkurborgar gegn útboðsskyldu sinni með gerð samninga við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Kærunefnd útboðsmála lagði tveggja milljóna króna stjórnvaldssekt á borgina og gaf fyrirmæli um að hún gengi frá útboði verksins.
Í ágúst 2021 hafnaði kærunefnd útboðsmála endurupptökubeiðni Orku náttúrunnar í máli gegn Reykjavíkurborg og Ísorku ehf. Þá hafnaði nefndin einnig erindi Reykjavíkurborgar um að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar frá í júní yrði frestað.
Upphaf málanna má rekja til júlí 2020 þegar Reykjavíkurborg óskaði eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur hleðslustöðva fyrir bíla. Tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum og reyndist tilboð Orku náttúrunnar lægst og tilboð Ísorku næst lægst. Var tilkynnt í október 2020 að Reykjavíkurborg hefði samþykkt tilboð ON.
Ísorka kærði útboðið og úrskurðaði kærunefnd útboðsmála 11. júní 2021 að þar sem útboðið hefði ekki verið kynnt á evrópska efnahagssvæðinu væri samningur ON óvirkur og borgin yrði bjóða út innkaupin að nýju. Reykjavíkurborg var gert að slökkva á 156 hleðslustöðvum fyrir rafbíla í Reykjavík. Vildi Reykjavíkurborg fá að fresta lokun stöðvanna en því var hafnað og var höfnunin áréttuð í ágúst 2021.
Í ágúst 2021 var sagt frá því að útboð Reykjavíkurborgar á uppfestibúnaði fyrir lýsingu og viðburðarbúnað í Laugardalshöll hefði fjórum sinnum farið í gegnum innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar. Útboðið hefði þrisvar sinnum verið kært og nú hefði Reykjavíkurborg ákveðið að ráðast í nýtt útboð. Bitnar þetta á íþróttastarfi í Laugardalshöll.
Háttur pólitískra stjórnenda Reykjavíkurborgar er að víkjast undan að svara og láta mál velkjast ábyrgðarlaust. Þetta á ekki aðeins við í útboðsmálum þar sem unnt er að kæra og fá niðurstöðu. Nægir nú að nefna alvarlega stöðu nemenda og foreldra vegna Fossvogsskóla. Þeir sem eiga rétt á viðunandi þjónustu þar treysta ekki lengur einu orði sem stjórnendur Reykjavíkurborgar segja þegar þeir lofa úrbótum.
Stjórn- og ábyrgðarleysið er algjört á æðstu stöðum í Reykjavíkurborg. Vegna þingkosninganna 25. september 2021 ættu kjósendur að hafa hugfast að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, býður þann kost að sambærilegir stjórnarhættir verði teknir upp fyrir þjóðina alla.