Sérstaða Íslands eykst
Þegar litið er til norrænu ríkjanna utan Íslands með hliðsjón af allsherjarvörnum í hernaði standa stjórnvöld þar á allt annan hátt að málum en hér er gert.
Norska varnarmálaráðuneytið segir í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025 að í ljósi stöðunnar í öryggismálum og mats á ógn sem steðji að Noregi telji ríkisstjórnin nauðsynlegt að beint sé að nýju athygli að áætlunum um viðbrögð við vopnaðri árás á Noreg. Í því skyni skuli á öllum sviðum skoðað hvernig styðja megi við aðgerðir hersins til varnar landinu innan ramma totalforsvarskonseptet, það er stefnunnar um allsherjarvarnir.
Þá segir ráðuneytið einnig í greinargerðinni að allar bjargir þjóðarinnar ætti að verða unnt að nýta reyndist það nauðsynlegt til varnar ríkinu og tilvist samfélagsins. Þetta eigi ekki síður við nú á tímum en þegar stefnan um allsherjarvarnir var mótuð eftir aðra heimsstyrjöldina. Til að styrkja varnarmáttinn, viðnámsþolið og andspyrnuþróttinn verði að samræma vel hvernig ólíkir þættir samfélagsins verði virkjaðir.
Þá er lögð áhersla á að áætlanagerð, þjálfun og æfingar skipti höfuðmáli þegar lagt sé mat á styrk allsherjarvarnanna. Vegna ástandsins í öryggismálum verði gerendur í allsherjarvörnunum að verða virkari í daglegu samstarfi til að þeir geti komið í veg fyrir eða brugðist við hættum á öllum sviðum. Mikilvægast sé að allsherjarvarnir nýtist í stríði. Til að svo verði beri að undirbúa, þjálfa og æfa viðbrögð á friðartímum.
Sé allsherjarvarnarkerfið búið undir stríð leiði það til þess að borgaralegi hluti samfélagsins geti lagt mikið af mörkum til aðgerða norska hersins og bandamanna hans til varnar Noregi á sama tíma sem ekki sé vegið að grunnstarfsemi samfélagsins og grunnöryggi landsmanna.
Frá þessu er sagt á norsku vefsíðunni Altinget.no þriðjudaginn 8. október og þar kemur einnig fram að nú sé unnið að því á vegum norskra yfirvalda að gera úttekt á hvernig skuli nýta borgaralega gerendur á hættutímum og í stríði. Er það meðal annars gert af því að í alþjóðalögum um hernað sé mælt fyrir um að aðeins hermenn geti barist í stríði komi til vopnaðra átaka, á hinn bóginn eigi að veita almennum borgurum vernd.
Þegar litið er til norrænu ríkjanna utan Íslands með hliðsjón af allsherjarvörnum í hernaði standa stjórnvöld þar á allt annan hátt að málum en hér er gert. Finnar hafa haldið í sitt kerfi á þessu sviði frá lokum annarrar heimsstyrjaldarinnar og standa öðrum þjóðum framar. Sænska ríkisstjórnin setti allsherjarvarnir í forgang í byrjun þessa árs og hóf skipulega sókn til að búa allt samfélagið undir hættuna af hernaði í Svíþjóð. Síðsumars stofnaði danska ríkisstjórnin sérstakt ráðuneyti til að sinna borgaralegum þætti varnarmálanna. Nú birtist ofangreind forgangsröðun í norska fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.
Umræður hér um stöðu Íslands í ljósi aukinnar stríðshættu í okkar heimshluta eru eins fjarri þessum norræna veruleika og verða má. Fyrrverandi þingmaður telur að lokun gagnslauss sendiráðs í Moskvu kalli á kjarnorkuárás – skyldi hann telja að með því að opna verklaust sendiráð okkar breytist hættumat nágrannaþjóða? Hér er logið á þingi og í Morgunblaðinu vegna breytinga á EES-lögunum íslenskum borgurum í vil. Látið er eins og það sé Íslendingum helst til bjargar að eiga í illdeilum við bandamenn sína. Hvílík firring!