13.4.2021 9:55

Sérgreinalæknar grunaðir um sjálftöku

Ráðherrann gefur með öðrum orðum til kynna að ekki sé unnt að semja við sérgreinalækna af ótta við sjálftöku af þeirra hálfu.

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, spurði mánudaginn 12. apríl Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um samskipti hennar og sérgreinalækna sem hafa verið samningslausir við ríkið síðan undir lok árs 2018. Svandís tók við embætti heilbrigðisráðherra árið 2017 og hefur staðfastlega hindrað aðra starfsemi á sviði heilbrigðismála en undir forsjá ríkisins. Meira er nú greitt úr ríkissjóði til þeirra sem leita sér lækninga erlendis en sambærileg aðgerð kostaði ríkissjóð hér innan lands.

Depositphotos_150143072-stock-photo-medical-workers-in-laboratoryÍ óundirbúnum fyrirspurnatíma á þingi sagði Birgir:

„Mér finnst ástæða til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvar þessi mál standi, hvort hún geti gefið okkur lýsingu frá sinni hlið á því hvernig stendur á því að samningar hafi ekki náðst [við sérgreinalækna] á þessum tíma og hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér í samningum ríkisins við þennan hóp sem gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í okkar heilbrigðiskerfi. Auðvitað hefur verið ákveðin togstreita milli sjónarmiða um það hvað eigi að fara fram á vegum hins opinbera og hvað á vegum einkaaðila en ég spyr hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér breytingar í þeim efnum.“

Varla er unnt að orða þetta mildara en þingflokksformaðurinn gerir í lok þessara orða þegar hann vekur máls á hugmyndafræðilegri andstöðu sósíalistans í ráðherrastólnum við samstarf opinbera kerfisins við einkaaðila. Hugmyndafræði sem er höfð að engu í nágrannaríkjum en ræður hér þótt hún hafi vikið gagnvart Íslenskri erfðagreiningu í heimsfaraldrinum.

Í stað samnings við sérgreinalækna hefur heilbrigðisráðherra framlengt greiðslur til þeirra til bráðabirgða með reglugerðum.

Í svari ráðherrans koma að vísu fram réttmætar efasemdir um lögmæti þess að gefa hvað eftir annað út slíkar reglugerðir í stað þess að semja við lækna. Að læknar íhugi að láta reyna á lögmæti bráðabirgðrar reglugerðar sem nú er enn boðuð vegna samningsleysis við sérgreinalækna er ólíklegt miðað við hve þeir tóku því illa að látið var reyna á sóttkvíarreglur ráðherrans fyrir dómstólum um páskana.

Þegar kemur að inntaki ágreiningsins við sérgreinalækna færir ráðherrann málið í þann búning að ekki sé unnt að semja við læknana vegna þess að „fjárstjórnarvaldið“, það er alþingi, ákvarði „hversu miklar upphæðir við viljum setja í kaup á þjónustu sérgreinalækna“. Og heilbrigðisráðherra sagði:

„Það [fjármagnið] getur ekki verið ótakmarkað. Það er takmarkað á einhvern hátt. Þá þurfum við að vita sem kaupandi þeirrar þjónustu hvaða þjónusta það á að vera. Þarna stendur hnífurinn í kúnni vegna þess að veitendur þjónustunnar vilja geta veitt hana samkvæmt eigin mati og sent síðan reikninginn á ríkið. Það er þessi ágreiningur sem liggur í loftinu.“

Ráðherrann gefur með öðrum orðum til kynna að ekki sé unnt að semja við sérgreinalækna af ótta við sjálftöku af þeirra hálfu. Hugmyndafræðin er þessi: ef þetta er ekki undir beinni fjármálastjórn ríkisins er svindlað á ríkinu. Að sérgreinalæknir sitji undir ásökunum um að ekki sé unnt að semja við þá af þessum sökum er harður dómur af hálfu ráðherrans, viðsemjanda þeirra.