15.9.2023 10:35

Segir hættulegt að kjósa á Íslandi

Konráð lýsir ánægju yfir „hugrekki“ kjósenda og bætir við að í heimalandi sínu, Íslandi, sé hættulegt að taka þátt í kosningum vegna fjarveru lögreglu og skorts á viðunandi öryggi.

Í Brussel er gefin út vefsíðan EUobserver og snýst hún að verulegu leyti um innri málefni ESB-ríkjanna. Fleira rekur þó á fjörur lesenda síðunnar og þriðjudaginn 12. september birtist þar grein eftir Anton Shekhovtsov, forstjóra Centre for Democratic Integrity, stofnunar til verndar lýðræðinu, í Vínarborg og höfund þriggja bóka: New Radical Right-Wing Parties in European Democracies (2011), Russia and the Western Far Right: Tango Noir (2017) og Russian Political Warfare (væntanleg 2023).

Fyrirsögn greinarinnar á EUobserver er: Íslenskur meindýraeyðir í Úkraínu sýnir einangrun Rússa. Þar er í upphafi vitnað í viðtal við Íslendinginn Konráð Magnússon í rússneskum miðli sunnudaginn 10. september þar sem hann ber lof á rússneska hermenn sem veittu þeim vernd sem tóku þátt í rússneskum „kosningum“ í hernumdum hlutum Kherson-svæðisins í Úkraínu.

Konráð lýsir ánægju yfir „hugrekki“ kjósenda og bætir við að í heimalandi sínu, Íslandi, sé hættulegt að taka þátt í kosningum vegna fjarveru lögreglu og skorts á viðunandi öryggi.

Þá segir Shekhovtsov:

„Á Íslandi? Hættulegt? Að fara á kjörstað? Ég skal gúggla fyrir ykkur: 15. árið í röð er Ísland öruggasta landið á plánetunni samkvæmt viðurkenndu yfirliti frá Global Peace Index.“

Hann segir að í rússneska heiminum vitni fjölmiðlar Kremlverja ákaft í lofsyrði Konráðs um rússnesku „kosningarnar“ og lýsi honum sem „alþjóðlegum eftirlitsmanni“, „kosningasérfræðingi“ og „alkunnum manni“ sem hafi greinilega séð að „kosningarnar“ á hernumdum svæðum Úkraínu væru frjálsar, lýðræðislegar og heiðarlegar.

Shekhovtsov segir Konráð ekki þekktan sem „kosningasérfræðing“ utan rússneska blekkingarheimsins. Hann sé meindýraeyðir í Reykjavík og drepi rottur og máva.

Media_0651feb1ecc749ddab572bbf36e557f4Russia_Ukraine_War_Kherson_Explainer_32187Konráð Magnússon meindýraeyðir saknar her- og lögregluverndar á kjörstöðum á Íslandi. Telur mun meira öryggi kjósenda á hernumdum svæðum Rússa í Úkraínu. Myndin sýnir hervörð við kjörstað þar.

Anton Shekhovtsov rifjar upp að í september 2022 hafi Rússar efnt til gervi-þjóðaratkvæðagreiðslna á svæðum sem þeir höfðu þá hernumið í stríðinu við Úkraínumenn og síðan hafi þau verið formlega innlimuð í Rússland 30. september 2022.

Á ruv.is birtist 21. september 2022 frétt um að kvöldið áður hefði Konráð Magnússon sent boð til íslenskra fjölmiðla um að kosta blaðamenn til að fylgjast með skyndiatkvæðagreiðslum í hernumdum héruðum Úkraínu. Konráð segir sérstakan sjóð rússneskra stjórnvalda greiða fyrir ferðir fjölmiðlamannanna og allt uppihald. Enginn fjölmiðill þáði boðið.

Á vefsíðunni DV sagði frá því miðvikudaginn 13. september 2023 að blaðakonan Erna Ýr Öldudóttir hefði verið með Konráði á vegum Rússa við kosningaeftirlit í Kherson 10. september 2023 og þau hefðu einnig fylgst með gervi-þjóðaratkvæðagreiðslunum á hernumdu svæðunum í fyrra.

Anton Shekhovtsov segir Konráð í hópi ýmissa útlendinga sem hafi engan skilning á um hvað stríðsátökin í Úkraínu snúist.

Þetta séu með öðrum orðum nytsamir sakleysingar sem taki þátt í blekkingar- og áróðursstarfsemi Rússa. Í frétt Morgunblaðsins í dag (15. sept.) segir að utanríkisráðuneytið útiloki ekki að þeir sem leggi Rússum lið á þennan hátt lendi í vandræðum.

Í lok greinarinnar á vefsíðunni EUobserver er minnt á að fyrir rússnesku „kosningarnar“ hafi Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýst þeim sem „hreinu áróðursbragði“ og ítrekað að „sérhver einstaklingur sem styður gervikosningar Rússa í Úkraínu, þar á meðal með því að koma fram sem svonefndur „alþjóðlegur eftirlitsmaður“, kann að sæta refsingum og skorðum vegna vegabréfsáritunar.“

„Spurning vaknar um hvort Bandaríkjastjórn standi við stóru orðin og til hvaða aðgerða ESB kunni að grípa,“ eru lokaorðin í greininni eftir Anton Shekhovtsov.