Seðlabanki lokar á listaverk
Frekari skýringar af hálfu bankans eru vel við hæfi. Seðlabanki Íslands á mörg góð listaverk. Hefur verið mótuð ritskoðunarstefna um sýningu þeirra?
Kolbrún Bergþórsdóttir segir í leiðara Fréttablaðsins í morgun (21. janúar):
„Seðlabankinn hefur nú flokkað verk vel metins listamanns [Gunnlaugs Blöndals] sem ámælisverða list sem sé til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem á hana horfa. Engar líkur eru á að listfræðingar þessa lands taki undir það mat. Seðlabankinn kom verkunum í öruggt skjól, setti þau í læsta geymslu. Þar eiga þau hins vegar ekki heima, þau ættu að vera á listasafni þar sem landsmenn fá að njóta þeirra. Íslenska þjóðin er blessunarlega þeirrar gerðar að hún er ekki líkleg til að fá vægt taugaáfall við að sjá nakta manneskju á mynd, hvort sem um er að ræða karl eða konu.“
Rætt var um þetta mál við Guðmund Odd Magnússon (Godd), prófessor við Listaháskóla Íslands, í morgunútvarpi ríkisins og segir meðal annars á ruv.is
„Segir Guðmundur ljóst að eitthvað hafi ekki komið fram í málinu. „Svona gerir enginn með fullu viti.“ [...]
„Nekt í listum er náttúrulega út um allt og er stór þáttur af allri listasögu alheimsins. Það er ævafornt fyrirbæri að sýna mannslíkamann í allri sinni dýrð. Þetta er bara eitt form af myndlist,“ segir Guðmundur. „Í fyrsta lagi er anatómía, eða sem sagt það að teikna og mála mannslíkamann, hluti af klassískri menntun í öllum listaháskólum heimsins. Menn fara í módelteikningu með nöktum körlum og konum og þess vegna dýrum.““
Málverk eftir Gunnlaug Blöndal.
Um leið og tekið er undir það sem Kolbrún og Goddur segja er ekki unnt að líta fram hjá því að kvörtunin vegna listaverksins og viðbrögðin við henni er í anda þess sem kallað er „safe space“ og setur í vaxandi mæli svip sinn á háskólahverfi, einkum í Bandaríkjunum. Krafan er að nemendur eigi að geta stundað nám sitt án þess að heyra (eða sjá?) eitthvað sem kann að koma þeim í uppnám.
„Ákveðið var að þessi málverk yrðu ekki á almennum vinnusvæðum eða á skrifstofum yfirmanna, þ.e. á þeim svæðum þar sem almennir starfsmenn vinna eða þurfa að leita með erindi,“ sagði Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, laugardaginn 19. janúar í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Tekið skal undir með Goddi að varla sé öll sagan sögð með þessum orðum. Meira hljóti að hanga á spýtunni.
Eins og kunnugt er vanda forráðamenn seðlabanka sig jafnan sérstaklega þegar þeir fjalla opinberlega um verðmæti, orð þeirra geti vegið þyngra en gull. Varla er slíkt í húfi hér? Frekari skýringar af hálfu bankans eru vel við hæfi. Seðlabanki Íslands á mörg góð listaverk. Hefur verið mótuð ritskoðunarstefna um sýningu þeirra?