2.4.2019 10:20

SDG reiður og grefur undan fyrirvörum

Þetta segir raunar allt sem segja þarf um stórundarlega stöðu SDG í þessu máli. Þarna hrópar hann að forsætisráðherra.

Í gær (1. apríl) lagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fram tillögu til þingsályktunar um innleiðingu þriðja orkupakkans og nýtur tillagan stuðnings stjórnarflokkanna og fleiri þingflokka. Enginn vafi ríkir um meirihluta að baki henni á þingi.

Miðflokkurinn hefur ákveðið að leggjast gegn málinu. Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson (SDG), formaður flokksins, kynnti í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær á hvern veg flokkurinn ætlar að haga andstöðu sinni. Þegar flokksformaðurinn lagði fyrirspurn fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra snerist efni hennar um þetta: „Er hæstv. forsætisráðherra sannfærður um að þeir fyrirvarar sem hafa verið boðaðir af hálfu ríkisstjórnarinnar eða ráðherra um þetta mál muni halda?“

PowerlinesÍ spurningunni felst að SDG viðurkennir að fyrirvarar hafi verið gerðir en á hann sækir vafi um að þeir haldi. Forsætisráðherra sagði fyrirvarann snúast um það „að á meðan Ísland er ekki tengt við raforkukerfi Evrópusambandsins eiga ekki við þau ákvæði reglugerðarinnar sem snúast um slíkar tengingar milli landa“. Þá sagði ráðherrann: „Það er fullur skilningur á því að þessi ákvæði þriðja orkupakkans eigi ekki við hér á landi nema ráðist verði í lagningu sæstrengs. Sömuleiðis liggur fyrir að ekki verður ráðist í lagningu sæstrengs nema meiri hluti Alþingis ákveði að svo sé.“

Viðbrögð SDG voru þau að lítið sé gert með fyrirvara innan ESB

„Því skyldum við ætla að eitthvert hald væri í því að Alþingi lýsti því yfir í þingsályktunartillögu að vilji þess stæði til að ekki yrði lagður sæstrengur öðruvísi en með aðkomu Alþingis?“ spurði flokksformaðurinn.

Forsætisráðherra svaraði meðal annars á þann veg að í tíð SDG sem forsætisráðherra 2013 til 2016 hefði mátt fylgjast með þessu máli í sameiginlegu EES-nefndinni og koma að fyrirvörum. Við þetta ókyrrðist SDG í þingsalnum og kallaði: Svara spurningunni! Þá sagði forsætisráðherra eins og fram kemur á vefsíðu alþingis:

„Þarna hefði verið æskilegt að hv. þingmaður, (SDG: Svara.) sem þá var í lykilhlutverki til að hafa áhrif á stöðu málsins, hefði reist sitt flagg (Gripið fram í.) á þeim tíma.“

Þetta segir raunar allt sem segja þarf um stórundarlega stöðu SDG í þessu máli. Þarna hrópar hann að forsætisráðherra. Hann sakar mig um ósannindi þegar sagt er frá fundi hans og Davids Camerons, forsætisráðherra Breta, 28. október 2015 þar sem þeir lögðu á ráðin um samstarf um sæstreng.

Snúist andstaðan við þriðja orkupakkann nú um ótta við að fyrirvarar haldi ekki er rétt að minna á að andstæðingarnir hömruðu á einu stigi málsins á nauðsyn slíkra fyrirvara. Meginfyrirvarinn er að hér verði ekki reist nein grunnvirki til flutnings raforku til annarra landa nema alþingi samþykki og þá verði skoðað hvort lög um það efni standist stjórnarskrá. Er SDG í raun þeirrar skoðunar að ESB geti knúið alþingi til að setja slík lög þvert á vilja þingmanna?