SDG og GBS taka U-beygju vegna 3. orkupakkans
Undan þessum „viðvörunum“ að utan hafa þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi fallið og tekið U-beygju vegna 3. orkupakkans
Miðflokkurinn hélt flokksráðsfund á Akureyri 3. nóvember 2018 og ályktaði meðal annars:
„Á hundrað ára fullveldisafmæli virðist allt benda til þess að ríkisstjórnin ætli sér að innleiða hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins, þrátt fyrir ótal viðvaranir, heimanfrá og að utan. Það er ótækt að jafn stórt hagsmunamál og hér um ræðir sé látið reka á reiðanum af starfandi stjórnvöldum. Að líkindum í trausti þess að málið, sem kallar á verulegt fullveldisframsal, renni í gegnum ríkisstjórn og Alþingi, án þess að til varna verði tekið.“
Gunnar Bragi Sveinsson alþingismaður er varaformaður Miðflokksins. Þegar ofangreind ályktun um 3. orkupakka ESB er lesin vaknar spurning um hvort hann hafi setið flokksráðsfundinn. Myndin sem hér fylgir er af vefsíðu flokksins og er sögð frá fundinum 3. nóv. og þar er Gunnar Bragi með Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, annan varformann, við hlið sér.
Gunnar Bragi Sveinsson 1. varaformaður og Anna Kolbrún Árnadóttir 2. varaformaður Miðflokksins á Akureyri 3. nóv. 2018. Mynd af vefsíðu Miðflokksins.
Hvers vegna er ástæða til að velta fyrir sér hvort Gunnar Bragi hafi setið fundinn? Svarið er: Þegar Gunnar Bragi var utanríkisráðherra á árunum 2013 til apríl 2016 sendi hann þrjú minnisblöð til utanríkismálanefndar alþingis (27. júní 2014, 7. nóvember 2014 og 23. febrúar 2015) varðandi ákvæði í 3. orkupakkanum sem snerta tveggja stoða kerfi EES-samningsins.
Minnisblöðin eru reist á því að tveggja stoða kerfið sé virt og ekki felist brot gegn stjórnarskrá Íslands og þar með fullveldinu í aðild að 3. orkupakkanum. Þetta er einnig samhljóða niðurstaða stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis í áliti sem gefið var 27. nóvember 2014 og lesa má í þingtíðindum.
Þessi niðurstaða ráðuneytis Gunnars Braga og þingnefndar þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra leiddi til þess að tilkynnt var í sameiginlegu EES-nefndinni að íslensk stjórnvöld samþykktu að 3. orkupakkinn yrði hluti EES-löggjafarinnar en til þess að svo yrði þyrfti lagabreytingar á Íslandi.
Í ályktun flokksráðs Miðflokksins undir formennsku Sigmundar Davíðs og varaformennsku Gunnars Braga segir nú að „ótal viðvaranir, heimanfrá og að utan“ hafi borist vegna 3. orkupakkans. Ekki bárust neinar viðvaranir frá þeim félögum þegar þeir höfðu aðild Íslands að pakkanum í hendi sér sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra, lykilmenn við fullveldisgæsluna. Þeir unnu þvert á móti að aðild að pakkanum með stuðningi alþingismanna.
Allt bendir til þess að Miðflokknum á Íslandi sé í þessu máli fjarstýrt af systurflokki sínum Senterpartiet í Noregi sem til „å sikre det norske folkestyret og kontroll med våre naturresurser og grenser, sier Senterpartiet nei til EU-medlemskap, EØS-avtalen og Schengen-samarbeidet“.
Undan þessum „viðvörunum“ að utan hafa þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi fallið og tekið U-beygju vegna 3. orkupakkans. Í þeirra huga er þetta staðfesta í þágu fullveldis. Nær er að kalla það hentistefnu og hringlandahátt.