7.9.2018 10:13

Saumað að Trump

Samsæriskenningin er sjálfbær og magnast stig af stigi. Líklega er þetta hættulegasta afleiðing greinarinnar.

Erfitt er fyrir þá sem ekki þekkja af eigin raun að ímynda sér ástandið í Hvíta húsinu og annars staðar í Washington vegna nafnlausu greinarinnar sem The New York Times birti miðvikudaginn 5. september og sögð er skrifuð af háttsettum embættismanni í stjórn Donalds Trumps.

Greinina má lesa á íslensku hér. Eins og af henni sést er tilgangur höfundar að róa Bandaríkjamenn. Þótt við þeim blasi glundroði vegna forsetans eða í kringum hann geti þeir andað léttar, það séu menn með viti við stjórnvölin á annarri braut en forsetinn. Menn sem setji þjóðarhag ofar öllu öðru, þeir séu „þögul andspyrnuhreyfing“.

Tilmælin til Trumps í greininni eru að hann láti af dyntum sínum, haldi sig við efnið á fundum, hætti rausi sínu um menn og málefni, sýni kurteisi og smjaðri ekki fyrir harðstjórum og einræðisherrum á sama tíma og hann tali niður til bandamanna Bandaríkjanna. Varla er þarna til of mikils mælst?

Órói vegna greinarinnar stafar af ótta forsetans við allt og alla, nú einnig nánasta eigið starfslið. Hann vill fá að vita hver skrifaði greinina, birting hennar feli í sér landráð eða ógn við öryggi ríkisins. Greinin kann því að verða kveikjan að enn ofsafengnari aðgerðum forsetans og stuðningsmanna hans til að draga fram í dagsljósið andstæðinga hans. Vandinn er hins vegar sá að Trump og félagar hafa búið til hulduríki (e. deep state) þar sem þetta fólk heldur sig. Hvort tekst að svæla það úr skúmaskotunum er með öllu óvíst. Samsæriskenningin er sjálfbær og magnast stig af stigi. Líklega er þetta hættulegasta afleiðing greinarinnar.

CNN-fréttastofan birti lista með nöfnum 13 karla og kvenna, þau komi til greina sem höfundar greinarinnar. Mike Pence varaforseti og Mike Pompeo utanríkisráðherra neituðu strax að þeir ættu hlut að máli. Báðir notuðu tækifærið til að veitast að The New York Times, árásir á blaðið jafngilda hollustu við Trump. Dan Coats, yfirmaður allra leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, hafnaði því að vera „moldvarpan“.

Á lista CNN er Don McGahn, lögfræðingur Hvíta hússins, sem lætur brátt af störfum. Þar er Jeff Sessions dómsmálaráðherra. James Mattis varnarmálaráðherra er á listanum og enn má nefna John Kelly, liðsstjóra Trumps, Kellyanne Conway, ráðgjafa forsetans, Kirstjen Nielsen heimavarnaráðherra, Fionu Hill, ráðgjafa um Rússland, og Nikki Haley, sendiherra hjá SÞ. Þá segir CNN að í sápuóperu Trumps komi einnig til álita að „Javanka“ – hjónin Jared Kushner og Ivanka Trump – eða jafnvel Melania Trump forsetafrú standi að baki greininni.