Saumað að forsætisráðherra
Fyrir utan að lýsa því frá sínum sjónarhóli sem gerðist á milli Ásthildar Lóu og Eiríks Ásmundssonar fyrir rúmum þremur áratugum lýsir Ólöf samskiptum sínum við forsætisráðuneytið.
Þegar Hallgrímur Helgason rithöfundur sagði við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, í sjónvarpssamtali á Samstöðinni að hún væri Trumpisti vegna skoðunar hennar á vók svaraði hún að Hallgrímur ætti að líta í spegil og mátaði hann síðan í samtalinu – sumir segja að hún hafi slátrað honum.
Orðaskiptin koma í hugann við lestur greinar sem Ólöf Björnsdóttir, sjúkraliði með BA í sálfræði sem vinnur að meistararannsókn í fötlunarfræðum, skrifar og birtist á vefsíðunni Vísi mánudaginn 7. apríl. Greinin hefst á þessum orðum:
„Sannleikurinn er sagna bestur. Ég er umrædd tengdamamma í hinu umdeilda máli Ásthildar Lóu Þórsdóttur og þar eru ýmis atriði sem mér þykir að þurfi að skýra. Ég kem ávallt hreint fram og hef lýst því áður, og geri það aftur hér, að ég taldi ekki viðeigandi að Ásthildur Lóa sinnti starfi barnamálaráðherra - vegna hennar forsögu og framkomu hennar við barnsföður sinn. Manni sem bjó undir mínu þaki og ég hef þekkt í yfir þrjátíu ár.“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Ólöf Björnsdóttir (samsett mynd: Vísir).
Fyrirsögn greinarinnar er: Sannleikurinn í tengdamömmumálinu. Fyrir utan að lýsa því frá sínum sjónarhóli sem gerðist á milli Ásthildar Lóu og Eiríks Ásmundssonar fyrir rúmum þremur áratugum lýsir Ólöf samskiptum sínum við forsætisráðuneytið þegar hún vonaði að „með fundarbeiðni minni til forsætisráðherra, gæfist Ásthildi Lóu tækifæri til að stíga sjálf úr stóli barnamálaráðherra“.
Um þá tilraun sína segir Ólöf: „Ég vil lýsa stórkostlegri furðu á vinnubrögðum forsætisráðuneytisins, sem varpa líka ljósi á öryggisbrest þar innanhúss.“ Hún hringdi í forsætisráðuneytið. Sá sem svaraði fyrir þess hönd sagði að farið væri með tölvubréf til ráðuneytisins sem trúnaðarmál. „Ég vildi að það væri algjörlega öruggt og spurði aftur, því ég vildi ekki að þessar upplýsingar færu um borg og bý. Aftur staðfesti starfsmaðurinn það,“ segir Ólöf.
Forsætisráðherra hafi síðan sent fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem því sé hafnað að trúnaði hafi verið lofað. Sannleikurinn hafi ekki hentað ráðherranum í málinu.
„Aðstoðarmaður forsætisráðherra afhenti barnamálaráðherra [Ásthildi Lóu] upplýsingar um erindi mitt og umkvörtun, auk persónuupplýsinga um mig. Um það er ekki deilt. Enda liggur fyrir að barnamálaráðherra bæði þráhringdi í mig og mætti heim til mín að kvöldlagi, óboðin,“ segir Ólöf og bætir við:
„Ekkert af þessu hefði gerst ef forsætisráðherra hefði ekki brugðist í þessu máli.“
Síðan minnir hún á upplýsingaóreiðuna sem skipulega var sett af stað til að draga athygli frá hlut Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í málinu. „Það er leitun að öðru eins bulli og hefur fengið að grassera á samfélagsmiðlum,“ segir Ólöf. Allt sem hún hafi gert sé upp á hennar eindæmi. Hún hafi sent „erindi á fréttamann sem ég treysti, eftir að ráðuneytið hafnaði því að veita mér áheyrn“. Hún hafi aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn. Síðast hafi hún kosið Samfylkinguna. Hún sé ekki búin að ákveða hvað hún kjósi næst en það verði ekki Flokkur fólksins.
Skyldu samsæriskenningasmiðir eða forsætisráðherrann nú líta í spegil?