4.10.2023 8:38

SAS skiptir um eigendur

Það er tímanna tákn fyrir stöðu flugreksturs á Íslandi hve þessi miklu umskipti í eignarhaldi á SAS vekja litla athygli hér.

Nýir eigendur eru nú að SAS, skandinavíska flugfélaginu. Þeir eru bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Castlelake (32%), Air France-KLM (19,9%) og Lind Invest (8,6%). Henrik Lind frá Árósum, 20. ríkasti maður Danmerkur, stendur að baki Lind Invest. Danska ríkið eykur hlut sinn úr 21,8% í 25,8%. Hlutafé verður aukið um 8,3 milljarða DKR, tæpa 170 milljarða ISK.

Carsten Dilling, stjórnarformaður SAS, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Stokkhólmi að kvöldi þriðjudagsins 3. október. Hann sagði að eftir þetta yrði SAS miklu „heilbrigðara félag“ og hefði skipað sér góðan sess í þeirri uppstokkun sem færi fram í evrópskum flugrekstri. Hann sagði fráfarandi hluthafa tapa öllu hlutafé sínu sem yrði afskrifað. SAS hafði leitað skjóls í Bandaríkjunum vegna yfirvofandi gjaldþrots.

SAS var í hópi flugfélaganna sem stofnuðu árið 1997 samstarfshópinn Star Alliance. Við eigendaskiptin verður félagið hluti af Sky Team Alliance sem Air France-KLM stofnaði á sínum tíma með öðrum.

Með eigendaskiptunum á SAS lýkur stormasömu ferli sem hófst veturinn 2022. Þá voru kynnt sparnaðaráform sem áttu að styrkja samkeppnisstöðu félagsins. Þau fólust í miklum niðurskurði, nýjum samningum við starfsmenn og mikilli hlutafjáraukningu.

24540122-tirsdag-aften-klokken-18-fr-vi-muligvis-svar-p

Í Berlingske segir miðvikudaginn 4. október að innan danska fjármálaráðuneytisins ríki ánægja með nýju meðeigendurna að SAS en ráðuneytið fer með hlut danska ríkisins í félaginu og getur nú myndað meirihluta í stjórn þess með Castlelake.

Ætlunin er að höfuðstöðvar SAS verði áfram í Stokkhólmi þótt ýmsir danskir stjórnmálamenn telji eðlilegt að þær verði fluttar til Kaupmannahafnar með hliðsjón af eignaraðild danska ríkisins.

Það er tímanna tákn fyrir stöðu flugreksturs á Íslandi hve þessi miklu umskipti í eignarhaldi á SAS vekja litla athygli hér. Áður fyrr var náið samstarf milli Flugfélags Íslands og SAS. Á níunda áratugnum var SAS tilnefnt sem besta flugfélag í heimi. Í Norður-Atlantshafsflugi hefur Icelandair náð mun meiri og betri fótfestu en SAS og samkeppni milli félaganna vegur líklega ekki þungt. Spurning er hvort það breytist við að bandarískur fjárfestir verður stærsti eigandi SAS.

Áður fyrr var SAS mun sýnilegra hér á landi en nú. Þótt það haldi úti áætlunarflugi hingað eru auglýsingar þess hér litlar. Færsla SAS frá Star Alliance yfir í Sky Team Alliance kann að hafa áhrif á ferðatengingar Íslendinga í gegnum Kaupmannahöfn.

Breytingin á eigendahópi SAS er fyrst og fremst áminning um að í áhætturekstri verða eigendur að vera tilbúnir til að taka róttækar ákvarðanir vilji þeir að merki sem hafa áunnið sér viðskiptavild í áranna rás lifi áfram. Ef til vill eigum við þó eftir að sjá flugfélag undir nafninu Air France-KLM-SAS.