26.2.2020 11:51

SAS-auglýsing gegn skandínavisma

Hressandi er hve mörgum verður heitt í hamsi í umræðunum í Danmörku þegar þeir gagnrýna SAS fyrir að vega ómaklega að dönskum gildum með auglýsingu sinni.

Umræður eru enn í Danmörku um sjónvarpsauglýsingu frá skandinavíska flugfélaginu SAS sem hófst á þessum orðum: „Hvad er virkelig skandinavisk?“ og síðan kemur svarið: „Absolut intent.“ Það er með öðrum orðum alls ekkert sem er sannarlega skandinavískt. Þetta er sannað með því til dæmis að sænskar kjötbollur séu ekki sænskar og að vínarbrauð sé ekki danskt.

Skynews-sas-scandinavian-airlines_4919870Þessar fullyrðingar fengu svo mjög á marga að SAS sá sig knúið til að breyta auglýsingunni. Nýkjörinn formaður danska mið-hægriflokksins Venstre, Jakob Ellemann-Jensen, kippti sér þó ekki upp við auglýsinguna og kastaði sér út í umræðuna með því að segja á Twitter að hann skildi ekki hvers vegna fólk æsti sig yfir því að SAS gripi til þess ráðs í auglýsinaskyni að sýna skandinava sem framtakssama og ferðaglaða einstaklinga sem tileinkuðu sér það sem þeir kynntust í útlöndum.

Fyrir utan deilurnar um efni málsins varð færsla flokksformannsins á Twitter til þess að dreginn var fram munurinn á að segja eitthvað á þeirri samfélagssíðu frekar en á Facebook. Það falli Twitter-lesendum betur í geð að litið sé á gildi í ljósi afstæðishyggju og hallast að glóbalisma en lesendum Facebook, þeir hefðu varla tekið undir léttúðuga afstöðu Ellemanns til danskrar menningar og þjóðareinkenna.

Er þetta einnig svo hér á landi að menn geta talað frjálslegar á Twitter en á Facebook? Spyr sá sem ekki veit vegna þekkingarskorts á Twitter.

Hressandi er hve mörgum verður heitt í hamsi í umræðunum í Danmörku þegar þeir gagnrýna SAS fyrir að vega ómaklega að dönskum gildum með auglýsingu sinni. Röksemdafærslan SAS ætti til dæmis að leiða til þess að þar sem menn notuðu tígulstein í Mesópótamíu fyrir 5000 árum ættu Danir ekki að fagna því sem dönskum menningararfi að þeir ættu Viborg dómkirkju og Krónborgarhöll. Þeir ættu að beina þökkum sínum til Íraks.

Rasmus Stoklund, talsmaður þingflokks danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum, skrifar grein í Jyllands-Posten miðvikudaginn 26. febrúar og gagnrýnir Jakob Ellemann-Jensen. Hann segist ekki efast um að flokksformaðurinn beri hlýjan hug til Danmerkur en undrast að honum sé ekki nóg boðið þegar SAS telji að Skandinavía sér ekki annað en auðn sem hafi fyllst af uppgötvunum, menningu, gildum og matvælum frá öðrum heimshlutum. Einkenni þjóðanna séu ekki annað en eftirmyndir. Auglýsingasmiðir SAS megi hvíla í friði en það sé áhyggjuefni að maður sem stefni að því að verða forsætisráðherra Danmerkur sætti sig við boðskap um að „alls ekkert“ sé skandinavískt.

Stjórnmálaumræður hér snúast lítið sem ekkert um það efni sem býr að baki deilunum sem SAS-auglýsingin vakti. Því miður hefur þróunin hér orðið í þá átt að menningararfinum sem skapar þjóðareinkennin er ekki sýndur sami sómi almennt í stjórnmálum og áður var. Of lítið er gert úr kristilega þættinum í honum.

Ákvarðanir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um reisa hús íslenskra fræða og styðja rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda eru varðstaða um rætur þjóðmenningarinnar.