17.12.2025 11:42

Sanna Magdalena vill leiða vinstrið

Dóra Björt vildi verða formaður Pírata en var hafnað. Nú er spurning hvort Sanna Magdalena nái að fá Pírata til liðs við sig.

Augljóst er að Samfylkingin nýtur stuðnings margra í flokkunum sem féllu út af þingi í kosningunum 30. nóvember 2024. Óvissa er um hvað tekur við á vinstri vængnum vegna brottfalls flokkanna er mikil. Á það reynir fyrir alvöru í sveitarstjórnakosningunum í maí 2026.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, hefur nú sagt skilið við flokkinn og ætlar að sameina vinstrið. Sjálf hefur hún staðið að því undanfarið að kljúfa Sósíalistaflokkinn þar sem hún var þó kosin til forystu á síðasta aðalfundi. Þótti henni samþykktir flokksins þrengja um of að valdi sínu.

Það er einkenni sósíalistaflokka sem starfa í anda Leníns að foringinn á að hafa óskorað vald. Þannig stjórnaði Gunnar Smári Egilsson flokknum og hlóð undir sjálfan sig útvarpsstöð þar sem hann flytur nú einræður án flokksvalds.

1619607Dóra Björt tilkynnir inngöngu í Samfylkinguna - stefnir hún á sæti Heiðu Bjargar borgarstjóra? (mynd: mbl.is)

Píratar kusu sér formann í fyrsta sinn á dögunum. Eftirleikur þess kjörs er að Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hefur sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við Samfylkinguna. Tilkynnti hún þetta þriðjudaginn 16. desember á blaðamannafundi með Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra. Sagðist Dóra Björt alltaf hafa verið jafnaðarmanneskja, hún hefur setið í borgarstjórn fyrir Pírata síðan 2018 og beitt sér mjög í skipulagsmálum, fyrir þéttingu byggðar og útrýmingu fjölskyldubílsins. Þar hefur hún átt náið samstarf við Hjálmar Sveinsson, hugmyndafræðing og borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem verður ekki í endurkjöri vorið 2026.

Dóra Björt vildi verða formaður Pírata en var hafnað. Nú er spurning hvort Sanna Magdalena nái að fá Pírata til liðs við sig.

Svandís Svavarsdóttir formaður VG sagði sig frá forystu í flokknum á dögunum og þar fer nú fram dauðaleit að nýjum formanni. Líf Magneudóttir borgarfulltrúi VG sagði í maí 2025 að óljóst væri um framboð VG í sveitarstjórnakosningunum 2026. Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður VG sagði á ruv.is sunnudaginn 14. desember að það væri svæðisfélags VG í Reykjavík að taka ákvörðun um framboðið. Þá sagði hann:

„Persónulega tel ég jákvætt ef stjórnmálahreyfingarnar á vinstri vængnum í Reykjavík geta sameinað krafta sína í kosningunum í vor, með skýrri áherslu á samhjálp, en ekki sérhyggju, jafnt aðgengi að námi, mannréttindi og umhverfismál í forgrunni.“

Hann útilokar ekki samstarf við Sönnu Magdalenu. Hvort henni heppnast að sameina vinstrið á bak við sig ræðst af afastöðu Samfylkingarinnar. Flokkurinn gæti ekki stigið stærra skref til að gleypa Pírata, VG og Sósíalistaflokkinn en að ganga til stuðnings við Sönnu Magdalenu sem borgarstjóraefni.

Í nýlegum kosningum til sveitarstjórna í Danmörku tapaði Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen forystu í Kaupmannahöfn til Enhedslisten sem er næsti bær við Sósíalistaflokkinn hér. Í New York var sósíalisti kjörinn í borgarstjóri og sósíalisti er borgarstjóri London.

Það liggur í spilunum að Sanna Magdalena verði borgarstjóraefnið til vinstri.

Hitt er einnig hugsanlegt að innan Samfylkingarinnar í Reykjavík nái Dóra Björt undirtökunum og ráði borgarstjóraefni flokksins.