Samspil þings og fjölmiðla
Þetta samspil málglaðra þingmanna sem hirða ekkert um sannleiksgildi orða sinna og gagnrýnislausra fjölmiðla rýrir bæði álit á alþingi og fjölmiðlum.
Alþingi kemur saman til funda á morgun (12. september) eftir sumarhlé. Líklegt er að þá taki við fastir liðir eins og venjulega: Þingmenn stjórnarandstöðunnar hlusti á fréttir og fari síðan í ræðustól í upphafi fundar til að segja skoðun sína á þeim í von um að komast sjálfir í fréttir.
Mörg þeirra mála sem haldið hefur verið lífi í mánuðum saman með þessari aðferð eru orðin svo margþvæld að sumir þingmanna virðast gleyma tilefninu og reisa málflutning sinn á eigin útleggingum sem ekki eiga sér neina stoð annars staðar en í hugarheimi þeirra.
Myndin er tekin 10. september 2023 og sýnir nýbyggingar Landspítalans mynda virkisvegg um gamla, gæsilega sjúkrahúsið eftir að „hallargarður“ þess hvarf.
Í góðu samtali í hlaðvarpi Þjóðmála bendir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, réttilega á skyldu ríkismiðilsins til að sjá til þess að setja staðreyndaramma um mál en ekki elta uppi skoðanir þeirra sem leyfa eigin ímyndun að ráða ferðinni. Hvað eftir annað gerist það að fréttastofa ríkisins og þáttastjórnendur rjúka upp til handa og fóta vegna einhvers sem síðar kemur í ljós að á ekki við nein rök að styðjast.
Hér hefur þetta verið orðað á þann veg að engu sé líkara en alla hlutlæga fréttastjórn skorti og einstakir fréttamenn eigni sér „gælufréttaefni“ sem þeir matreiði að eigin vild ofan í hlustendur eða áhorfendur. Hér skulu nefnd þrjú frá líðandi sumri: (1) framkvæmd nýju ákvæðanna í útlendingalögunun, (2) nýframkvæmdir í Landmannalaugum og (3) mótmæli gegn hvalveiðum.
Fréttir af þessum málefnum hafa verið bjagaðar vegna einkaskoðana fréttamanna. Erfitt er að stýra því hvað sagt er í beinni útsendingu en hitt er auðvelt að setja staðreyndaskorður og krefjast þess að fréttamenn haldi sig innan þeirra. Á þetta skortir í fréttum sem skulu sagðar í samræmi við kröfur í lögum og reglum.
Í ræðustól á þingi mega menn segja hvaða vitleysu sem þeir vilja, að hún sé síðan endurtekin fyrirvaralaust í fjölmiðlum sem gera engan mun á því sem er satt eða logið verður aðeins til að ýta undir ruglið í ræðustólnum. Þetta samspil málglaðra þingmanna sem hirða ekkert um sannleiksgildi orða sinna og gagnrýnislausra fjölmiðla rýrir bæði álit á alþingi og fjölmiðlum.
Þingfréttir voru áður fyrr sérstök grein blaðamennsku. Á tímum flokksblaða var hún í hávegum höfð og beindu blöðin einkum athygli að „sínum“ þingmönnum. Nú heldur ríkisútvarpið eitt úti sérstökum þingfréttaritara og hefur því betri forsendur en aðrir miðlar til að brjóta raunveruleg þingmál til mergjar og segja frá þeim frekar en eltast við upphrópanir í upphafi þingfunda þar sem lagt er út af atburðum dagsins frá flokkslegum sjónarhóli þess sem talar.
Líklegt er að fljótlega taki þingmenn til við að ræða „gælufréttaefnin“ þrjú sem nefnd voru hér að ofan. Þeir sem mest láta að sér kveða verða örugglega á sömu línu og ríkisfréttamennirnir: (1) að styðja málstað hælisleitenda þrátt fyrir ólöglega dvöl þeirra, (2) að hallmæla nýframkvæmdum í Landmannalaugum og (3) telja illa farið með hvalavini.
Frásagnir af þessum málum halda því áfram í fréttatímum RÚV í sama stíl og áður en nú í endursögn á ræðum þingmanna. Þrátt fyrir brotthvarf flokksblaðanna eiga þingfréttaritarar „sinn málstað“ að verja.