26.9.2020 10:48

Samsæriskenningar Q

Í Der Spiegel segir að innan Q-hreyfingarinnar sé að finna ógnvekjandi blöndu af geðveiki, hræðslu og vænisýki.

Í enskri netútgáfu þýska vikuritsins Der Spiegel birtist föstudaginn 25. september löng úttekt á dulafullu fyrirbæri sem sagt er standa nærri Donald Trump Bandaríkjaforseta og styðja hann í kosningabaráttunni sem nær hámarki með kappræðum frambjóðendanna repúblikanans Trumps og demókratans Joes Bidens nú í aðdraganda kjördagsins 3. nóvember. 

Fyrirbærið er hreyfing sem er þekkt undir heitinu QAnon og segir Der Spiegel að stuðningur við hana aukist í Þýskalandi vegna COVID-19-faraldursins.

Meðal annars er rætt við Kalwait-Borch sem stundar óhefðbundnar sállækningar og segir að fólk hafi hætt að leita til sín eftir útbreiðslu faraldursins. Hún segist hafa kynnt sér ástæðuna fyrir hræðslu fólks við veiru sem hafi önnur áhrif en látið sé í veðri vaka. Eftir athuganir hafi hún uppgötvað að heimsbölið  mætti rekja til elítu undir forystu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem stefndi lífi hennar í hættu og ætlaði að koma á fót „nýrri heimsskipan“ (e. new world order). Fyrst hafi elítan reynt þetta með loftslagsboðskap nú reyni hún það með kórónuveirunni. Hún óttast að með hefðbundnu bóluefni gegn COVID-19 verði reynt að breyta mönnum í viljalaus verkfæri.

Kalwait-Borch segir að í QAnon felist að vera „fullvalda mannvera“. Hún segir að Antifa séu hrikalega hættuleg hryðjuverkasamtök. Antifa eru and-fasísk vinstrisinnuð öfgasamtök í Bandaríkjunum. Þá segir hún að innan QAnon telji menn að útbreiðsla kórónuveirunnar stöðvist nái Trump endurkjöri.

QÍ Der Spiegel segir að innan Q-hreyfingarinnar sé að finna ógnvekjandi blöndu af geðveiki, hræðslu og vænisýki. Leyniþjónustur einstakra landa hafi vaxandi áhyggjur af því hvernig efasemdamenn um bólusetningar, ný-nazistar og dulvitringar nái að tengjast innan hreyfingarinnar. Felix Klein sem fylgist með að ekki sé vegið gegn gyðingum í Þýskalandi lýsir miklum áhyggjum sínum. Hann segir að QAnon hafi sérstöðu að því leyti að innan hennar sameinist menn með ólíkar samsæriskenningar, gyðingahatur virðist eins og skuggaþráður eða samnefnari sem tengi þessa strauma. Hann hvetur til þess að þýska leyniþjónustan fylgist nánar með notkun þessara hópa á boðleiðum á netinu.

Boðskapur Q hefur verið kynntur Íslendingum og ef til vill er hér hljómgrunnur fyrir samsæriskenningum af því tagi sem boðaðar eru undir merki hreyfingarinnar. Í Bandaríkjunum er ekki lengur litið á hreyfinguna felu-fyrirbrigði í pólitískum undirheimum heldur þátttakanda í stjórnmálalífinu.

Tímarnir eru vissulega undarlegir.