Samsæriskenningar fyrir Dag B.
Báðar þjóna þessar vinstri samsæriskenningar þeim tilgangi að tryggja Degi B. áfram úrslitavöld í borginni. Kenningarnar eru kynntar til að fela vinstri óstjórnina.
Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur ræddi í Kastljósi ríkissjónvarpsins þriðjudaginn 1. febrúar um niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar í 26 löndum á talsmönnum samsæriskenninga.
Hulda sagði rannsóknina birta þá almennu mynd að „örlítið meiri tilhneiging“ væri á hægri væng stjórnmálanna að aðhyllast samsæriskenningar. Síðan bætti hún við: „En það sem er svo merkilegt er að þessu var þveröfugt farið á Íslandi. Meðal okkar íslenska úrtaks var nokkuð greinilegt samband milli þess að segjast vera til vinstri í stjórnmálum og samsærishugsanagangs.“
Hulda taldi enga einhlíta skýringu á þessu. Þó mætti álykta út frá þeirri staðreynd að hér hefðu vinstrisinnar löngum verið utan ríkisstjórna andstætt Sjálfstæðisflokknum.
Þetta er forvitnilegt athugunarefni. Andstæðingar kvótakerfisins frá vinstri hafa til dæmis lengi látið eins og að baki kerfinu sé eitthvert samsæri sjálfstæðismanna. Í 7. kafla sjónvarpsþáttaraðarinnar Verbúðarinnar, sem snýst öðrum þræði og kvótakerfið og þróun þess, áréttaði ráðherrann þó sérstaklega þegar hann boðaði lagasetningu um framsal kvóta að þar væri ekkert að óttast vegna þess að vinstri stjórn stæði að breytingunni – sem er sögulega rétt.
Höfuðkempur Verbúðarinnar sem snýst öðrum þræði um að svipta hulunni af tilkomu kvótakerfisins, uppsprettu margra samsæriskenninga.
Nú má greina tvær samsæriskenningar frá vinstri í baráttunni um Reykjavík:
Önnur snýr að Sundabraut. Á 20 ára ferli Dags B. Eggertssonar í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ekkert miðað varðandi lagningu Sundabrautar þótt áform um hana bæri hátt fyrir kosningarnar 2002. Dagur B. hannaði þá kenningu sér til afsökunar í bók sinni Nýja Reykjavík að í stað þess að gagnrýna sig væri nærtækara að líta til gjaldþrots seðlabankans og „hvarfs“ símapeninganna!
Þetta er dæmigerð samsæriskenning sem samfylkingarfólk endurtekur í útvarpsþáttum og annars staðar þar sem það tekur til varna fyrir aðgerðarleysið frá því að vinstri menn náðu undirtökunum í borgarstjórn fyrir 28 árum.
Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra frá 1999 til 2007. Hann sagði á Facebook 27. janúar 2022:
„Alþingi samþykkti 13. mars 2003 Samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003-2014. Þar var gert ráð fyrir lagningu Sundabrautar. Dagur B Eggertsson og hans fólk í borgarstjórn hefur allar götur síðan komið í veg fyrir lagningu Sundabrautar. Vonandi átta borgarbúar sig á þessari ótrúlegu framgöngu borgarstjórans sem ber ábyrgð á því óforsvaranlega ástandi sem ríkir í umferðarmálum borgarinnar sem á rætur að rekja til þess að Sundabraut hefur ekki verið lögð“
Skýrara verður það ekki.
Hin samsæriskenningin er frá Kristrúnu Frostadóttur, nýkjörnum þingmanni Samfylkingarinnar. Hún snýst um að seðlabankinn en ekki húsnæðisskorturinn vegna byggðaþéttingarstefnu Dags B. valdi verðbólgunni hér.
Báðar þjóna þessar vinstri samsæriskenningar þeim tilgangi að tryggja Degi B. áfram úrslitavöld í borginni. Kenningarnar eru kynntar til að fela vinstri óstjórnina.
Oft er blásið á samsæriskenningar og þær ekki taldar svara verðar. Samfélagsmiðlar breyta þessu. Þær eru liður í fjölþátta átökum samtímans.