19.7.2021 10:47

Samsæriskenning jörðuð

Samsæriskenninguna bar hátt í ritdeilu sem ég átti við dr. Ólínu Þorvarðardóttur á liðnum vetri en hún endurtók hana í bók sem hún ritaði sjálfri sér til varnar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor er dálkahöfundur á vefsíðunni The Conservative. Hann birtir þar í dag, 18. júlí, grein undir fyrirsögninni: Laxness Not Blacklisted Yet Another Left-Wing Myth Refuted.

Frásögn Hannesar Hólmsteins er ítarleg til að kynna erlendum lesendum sínum aðdraganda innlendra ásakana um að bækur Halldóra Laxness hafi hætt að koma út í Bandaríkjunum í kringum 1950 vegna samsæris íslenskra stjórnvalda og bandarískra þar sem Edgar J. Hoover, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hafi gegnt aðalhlutverki ásamt Bjarna Benediktssyni, dómsmála- og utanríkisráðherra Íslands.

Samsæriskenninguna bar hátt í ritdeilu sem ég átti við dr. Ólínu Þorvarðardóttur á liðnum vetri en hún endurtók hana í bók sem hún ritaði sjálfri sér til varnar þar sem hún hefur ekki fengið opinbera stöðuveitingu frá því að ég skipaði hana skólameistara Menntaskólans á Ísafirði upp úr aldamótunum, stöðu sem hún sagði sig sjálf frá nokkrum árum síðar vegna ástands innan skólans.

Í bókinni sakar hún ekki aðeins mig um óvild í sinn garð heldur ýmsa aðra og setur sjálfa sig á bekk með Halldóri Laxness sem hafi mátt búa við sambærilegar pólitískar ofsóknir og hún. Innlendir pólitískir andstæðingar hans hafi hindrað útgáfu bóka hans í Bandaríkjunum eftir útgáfu á Sjálfstæðu fólki þar. Rökstuddi dr. Ólína þessar fullyrðingar með því að vitna í ævisögu Halldórs Guðmundssonar um Laxness. Halldór Guðmundsson hefur fyrirvara á skoðun sinni en blandaði sér þó í ritdeilu okkar dr. Ólínu henni til varnar.

Hugboð mitt hefur jafnan verið að þetta væri eins og hver önnur vinstrisinnuð samsæriskenning til að upphefja samherja á kostnað annarra. Aldrei hefur hvarflað að mér að af hálfu föður míns hafi verið leitast við að bregða fæti fyrir útgáfu verka Laxness í Bandaríkjunum og samtal mitt við skáldið um miðjan áttunda áratuginn um útgáfu verka hans í Bandaríkjunum staðfesti þetta hugboð mitt.

Alfred-A-Knopf-Books-Logo-1Alfred A. Knopf var útgefandi Halldórs Laxness í Bandaríkjunum umn miðja síðustu öld. Bókmenntalegir ráðgjafar lögðust þá gegn útgáfu bóka Nóbelsskáldsins vegna þess að þær höfðuðu ekki í bandarískra lesenda.

Á hinn bóginn skorti staðfestar heimildir fyrir því að bókmenntaleg afstaða útgefanda Laxness í Bandaríkjunum á þessum árum hafi ráðið ferðinni. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, fræðimaður búsettur í Danmörku, hefur nú fundið þessar heimildir og þær sýna svart á hvítu að bókmenntaleg rök lesara á vegum bandarísks útgefanda Laxness lágu að baki ákvörðun hans um að gefa ekki út fleiri bækur eftir skálið. Hér verður ekki endursagt það sem fram kemur í grein Hannesar Hólmsteins.

Forvitnilegt verður að fylgjast með viðbrögðum vinstrisinnuðu samsærissmiðanna.