23.1.2025 10:30

Samráði lýkur - róðurinn þyngist

Það er engin tilviljun að talað sé um „skotleyfi á opinbera starfsmenn“ þegar rætt er um óskir ríkisstjórnarinnar í samráðsgáttinni. 

Í dag, 23. janúar, lýkur samráði ríkisstjórnarinnar við almenning um leiðir til að auka hagsýni í opinberum rekstri. Að morgni þessa dags höfðu 3.574 tillögur borist. Efni þeirra sem birtar eru undir nafni má kynna sér á samráðsgátt stjórnvalda. Ekki er hins vegar unnt að fá neina heildarmynd af þeim ráðum sem þarna eru veitt því að við birtingu mikils fjölda tillagnanna hafa höfundar óskað nafnleyndar. Þá er efni tillögunnar lokað öðrum en þeim sem hafa aðgang að lokuðum hluta samráðsgáttarinnar.

7ab06ea3-1769-428b-ab53-d978830cec90-1-Ríkisstjórnin var skipuð á ríkisráðsfundi 21. desember 2024. Nú er samráðstíma lokið og róðurinn þyngist (mynd vefsíða stjórnarráðsins).

Í kynningu ríkisstjórnarinnar á þessu framtaki hennar sagði að árið 2025 væri áætlað að útgjöld íslenska ríkisins yrðu um 1.550 milljarðar króna eða 16 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu – sem skiptust í grófum dráttum í laun og rekstrarkostnað, fjárfestingu, tilfærslur og bætur. Því væri til mikils að vinna.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sendu forstöðumönnum ríkisstofnana bréf dags. 15. janúar 2025 og sögðu að sjónarmið stjórnenda hjá ríkinu væru nauðsynleg til að fá dýpri innsýn í hagræðingartækifæri. Forstöðumenn voru beðnir um tillögur að hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningu stofnana.

Nú á sérstakur starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins að fara yfir allar ábendingar og er ætlun stjórnvalda að niðurstöðurnar verði nýttar við að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í ríkisrekstri. Í fréttum hefur komið fram að þessi starfshópur muni nýta sér vitvélar (gervigreind) til að auðvelda sér greiningu á öllum tillögunum og ef til vill mat á þeim líka.

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. janúar birtist viðtal við Marinó Örn Tryggvason, fyrrverandi forstjóri Kviku og stofnandi ARMA Advisory. Talið barst að tillögum ríkisstjórnarinnar um að hagræða í rekstri ríkisins. Marinó Örn sagði að fyrir sitt leyti væri augljóst hvað gera þyrfti:

„Það vita allir hvað þarf að gera og það þarf engar tillögur til þess. Þetta er svipað og ef ég ætla að rækta kartöflur, þá þarf að byrja á að stinga upp garðinn. Ef ég geri það ekki fæ ég slæma uppskeru sama hvað ég geri. Það sama gildir með hið opinbera. Það þarf að breyta umhverfinu þannig að starfsmannahald verði með svipuðu móti og hjá einkageiranum því kostnaður ríkisins er fyrst og fremst launakostnaður. Annars er ekki hægt að hagræða.“

Hann sagði einnig mikilvægt að breyta löggjöfinni í kringum opinbera starfsmenn.

Þetta er rétt mat á því með hvaða hætti helst er unnt að hagræða til frambúðar í opinberum rekstri. Það er engin tilviljun að talað sé um „skotleyfi á opinbera starfsmenn“ þegar rætt er um óskir ríkisstjórnarinnar í samráðsgáttinni. Fyrir utan rekstrarkostnað (les: launakostnað) nefnir stjórnin „tilfærslur og bætur“ sérstaklega. Þar er ekki síst vikið að málaflokkum sem falla undir ráðherra Flokks fólksins sem á víst að fá formann fjárlaganefndar í sinn hlut þegar alþingi kemur saman.

Mánuður er frá myndun ríkisstjórnarinnar. Tíminn hefur að sögn forsætisráðherra verið notaður til að samræma áratökin – nú þyngist róðurinn.