9.3.2020 10:09

Samið í nótt - verkföllum aflýst

Ríkisstjórnin hefur setið á þriðja ár, glímt við mörg vandamál og leitt þau til lykta á farsælan hátt. Ástæðulaust er að láta eins og þrek hennar til þess sé þrotið.

Samninganefndir Sameykis og ríkisins sömdu í nótt. Sjúkraliðafélag Íslands samdi við Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið, einnig bæjarstarfsmannafélög innan BSRB. Sex kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við viðsemjendur náðust og var öllum verkföllum um 15 þúsund félagsmanna BSRB sem hófust á miðnætti aflýst.

„Ég átti satt að segja ekki von á því um kvöldmatarleytið í gærkvöldi að nóttin myndi fara svona; þá var ennþá nokkuð bið á milli samningsaðila en hlutirnir geta gerst hratt sérstaklega þegar verkföll standa fyrir dyrum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, á ruv.is.

1194367Ríkissáttasemjari birti þessa mynd eftir að samningar tókust.

Niðurstaðan í nótt kemur líklega fleirum á óvart, þannig segir til dæmis í leiðara Morgunblaðsins í dag (9. mars):

„Hér á landi er sú fjarstæðukennda staða uppi að í miðjum heimsfaraldrinum standa yfir harðar launadeilur og jafnvel verkföll sem óhjákvæmilega munu gera efnahagslegar afleiðingar miklum mun verri en ella. Þetta er ástand sem engin leið er að réttlæta og verður að ljúka tafarlaust. Verkfallsátök verða einfaldlega að bíða betri tíma, það skilja allir. Ein leið út úr þeim væri að tryggja öllum sömu hækkun og langflestir launþegar hafa þegar samið um og fresta frekari átökum þar til landsmenn og heimsbyggðin hafa jafnað sig á kórónuveirunni. Ríkisstjórnin með meirihluta þingsins að baki getur tryggt þessa lausn og þar með nauðsynlegan frið á vinnumarkaði við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja.“

Í grein í sama blaði segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins:

„Aðilar vinnumarkaðarins ættu að fresta kjaradeilum fram á haust, e.t.v. með skammtímasamningum.“

Staðreynd er að í kjaradeilunum nú eins og fyrir ári hafa Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, haldið á málum af festu og hógværð sem dugar best til að tryggja farsæla lausn á viðkvæmum deilum. Auðvitað átti ríkisstjórnin þann kost eins og nefnt var hér á þessum vettvangi að lögfesta með vísan til erfiðra ytri aðstæðna að niðurstaða lífskjarasamningsins skyldi gilda fyrir þá sem áttu í deilunum sem lauk með samningunum í nótt. Hitt er þó besta niðurstaða kjaradeilna að þeim ljúki með samningi. Ákveðið var að fara þá leið og sátt náðist.

Við aðstæður eins og nú ríkja stíga jafnan fram á völlinn menn með „patentlausnir“. Er þeim flaggað í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi um leið og gert er lítið úr verkum þeirra sem ábyrgðina bera. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson velur þennan kost í Morgunblaðinu í morgun.

Ríkisstjórnin hefur setið á þriðja ár, glímt við mörg vandamál og leitt þau til lykta á farsælan hátt. Ástæðulaust er að láta eins og þrek hennar til þess sé þrotið.

Minnt skal á að enn sitja að samningum Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingarformaður og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Næsti fundur verður síðdegis í dag. Sólveig Anna bregst þeim ekki sem telja að hún hafi heillast af gamla slagorðinu: Samningar eru svik!