27.2.2020 10:19

Samfylkingin skotmark sósíalistanna

Augljóst er að sósíalistarnir sem leiða Eflingu stéttarfélag og hófu feril sinn þar með því að reka alla sem kunna til verka við gerð kjarasamninga ætla beita verkfallsvopninu til að brjóta vinstri meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur á bak aftur.

Augljóst er að sósíalistarnir sem leiða Eflingu stéttarfélag og hófu feril sinn þar með því að reka alla sem kunna til verka við gerð kjarasamninga ætla beita verkfallsvopninu til að brjóta vinstri meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur á bak aftur í von um að ná pólitískum ávinningi hvað sem hag Eflingarfólksins líður.

Allar yfirlýsingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar sem leiða Eflingu í þessum pólitíska leik snúast um það eftir árangurslausan sáttafund miðvikudaginn 26. febrúar að gera sem minnst úr Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og leiðtoga Samfylkingarinnar í Reykjavík og þar með valdamesta mannsins innan flokksins.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er á sama pólitíska róli og Dagur B. Logi biðlar til flokkanna sem mynda meirihluta í borgarstjórn: Viðreisnar, VG og Pírata auk Framsóknarflokksins (sem á engan borgarfulltrúa) og segist vilja mynda vinstri stjórn að kosningum loknum og þess vegna útiloka Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn frá landstjórninni.

Í Kastljósi sjónvarpsins miðvikudaginn 26. febrúar sagði Logi meðal annars:

„Ég hef tvisvar hafnað því að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Það var einfaldlega vegna þess að það var enginn málefnagrundvöllur. Ég sé engan hag í því að sækjast eftir einhverjum skammtímagróða fyrir flokkinn eða mig sem persónu. Aðalatriðið er að við náum okkar markmiðum, þó á lengra tíma sé. Stjórnmál eru ekki spretthlaup. Ég vil fylgja samvisku minni og því sem ég lofaði kjósendum.“

Meginágreiningsefni Loga gagnvart Sjálfstæðisflokknum snýst um aðildina að Evrópusambandinu. Hann lítur greinilega á það sem markmið til að setja öllu öðru ofar og hann veit að Sjálfstæðisflokknum verður ekki hnikað frá andstöðu sinni við ESB-aðildina.

1192113Myndina tók Kristinn Magnússon á mbl.is og sýnir hún Sólveigu Önnu og félaga við upphaf fundar hjá ríkissáttasemjara miðvikudaginn 26. febrúar. Fundurinn var árangurslaus.

Í viðtalinu gerði Logi ágreining við þá skoðun sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti í Silfrinu sunnudaginn 23. febrúar að núverandi stjórn ætti að sitja út kjörtímabili, þar til haustið 2021.

Ekkert af því sem Logi nefnir þegar hann andmælir kosningum í október 2021 styðst við sterk rök. Að þing sitji heilt kjörtímabil er ekki skerðing á lýðræði eins og Logi gaf til kynna. Þá raska kosningar í október ekki gerð fjárlaga, megin vinna vegna þeirra fer fram fyrri hluta árs. Þá segir hann: „Við getum búist við alls konar veðri í lok október og kjósendur eiga heimtingu á því að við frambjóðendur eigum samræður við þá í aðdraganda kosninga.“ Þetta er fáfengileg afsökun – hvers vegna er efnt til kjördæmaviku á alþingi um hávetur? Hefur ekki þingflokkur sjálfstæðismanna nýlokið hringferð um landið? Þorði Logi ekki í slíkan leiðangur vegna veðurhræðslu?

Nú reynir á þá Dag B. og Loga með óska-meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur, hvort þeir bogni eða jafnvel brotni undan sókninni gegn þeim af hálfu sósíalistanna. Slagplanið frá því að Sólveig Anna lýsti lífskjarasamningnum sem „vopnahléi“ hefur verið að finna veikan blett í vörninni fyrir samninginn – Samfylkingin og samstarfsflokkar hennar eru augljósa skotmarkið.